Gripið í að seila hausa

Deila:

Hún er frá Fáskrúðsfirði. Hún hefur unnið þrisvar hjá HB Granda við ýmis störf, en selur nú botnfiskafurðir frá fyrirtækinu, Hún er maður vikunnar á kvótanum þessa vikuna.

Nafn?

Sólveig Arna Jóhannesdóttir.

Hvaðan ertu?

Fáskrúðsfirði,
Fjölskylduhagir?

Fráskilin, á þrjár dætur, tvö barnabörn og þriðja á leiðinni.

Hvar starfar þú núna?

Hjá HB Granda sem markaðsstjóri botnfiskafurða. Ég hóf störf í markaðsdeild HB Granda 2015. það var í þriðja sinn sem ég fékk vinnu í Norðurgarði 1. Fyrsta starfið var hjá Ísbirninum þegar ég flutti á mölina. Ég var svo í vinnu með skóla hjá Granda á sama stað.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Árið sem ég fermdist var fyrsta árið sem ég var í fastri vinnu í fiski en fyrir þann tíma frá ca. 10 ára hafði ég  hjálpað til í síld, gripið í að seila hausa, rífa upp saltfisk o.fl. Fyrsta sölustarfið var fyrir bróður minn sem er tveimur árum eldri. Hann keypti sér rauðmaganet fyrir fermingarpeningana og ég seldi svo fyrir hann aflann, ég hef þá verið 12 ára. Um svipað leyti gelluðum við líka saman systkinin. Hann var öflugri í að gella en ég vann það upp með því að selja afraksturinn.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Hvað starfið er lifandi og fjölbreytt og hvað maður kynnist mörgu duglegu fólki innlendu sem erlendu.

En það erfiðasta?

Óvissa.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Skrifaði það sem mér kom fyrst í hug en strokaði það út aftur, það er svo pólítískt.
Hver er eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Það er erfitt að gera upp á milli en Guðmundur Ingason hjá G. Ingason Seafood er klárlega einn af þeim. Hjá honum fékk ég fyrsta starfið við sölu og útflutning á sjávarafurðum.
Hver eru áhugamál þín?

Hreyfing, bæði líkamsrækt og útivist og svo fjölskyldan. Ég kenndi líkamsrækt 3x í viku í 10 ár í aukavinnu. Ég geng mikið á fjöll og um óbyggðir og er að stíga fyrstu skrefin í að spila golf. Það er bæði erfiðara og skemmtilegra en ég var búin að gera mér í hugarlund.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Lambakótelettur eru í miklu uppáhaldi. Ég borða þær gjarnan að lokinni fjallgöngu en líka sem snakk, bara einar og sér. Ég hef líka sérstakt dálæti á rjúpum en borða þær bara á jólunum. Hversdags myndi ég segja soðinn fiskur með kartöflum, hamsafeiti, tómatsósu og rúgbrauði með miklu smjöri.

 

Hvert færir þú í draumfríið?

Ég er að fara í draumafríið í lok júlí. Klára þá síðasta áfangann af göngu frá Reykjanesi út á Langanes. Byrja þar sem frá var horfið síðasta haust, í Ásbyrgi og enda úti á Fonti ca. viku síðar.

 

 

Deila: