Gullaldarárin á Akureyrinni

130
Deila:

„þetta voru gullaldarár. Erfitt til að byrja með og töluverð áhætta tekin, en skipið malaði fljótlega gull og varð undirstaðan undir velgegni Samherja. Ég var með skipið frá upphafi og í níu ár og okkur gekk mjög vel. Fiskuðum mikið og skiluðum miklum verðmætum. Maður á að þakka það sem vel hefur gengið,“ segir Þorsteinn Vilhelmsson skipstjóri um árin á Akureyrinni EA.

Þetta segir hann í ítarlegu viðtali í sjómannadagsblaði Ægis, sem er nýkomið út. Hann rekur þar upphafið og árin á Akureyrinn EA, sem var fyrsta skip Samherja. Þar segir hann ennfremur:

„Eftirminnilegar túrar frá þessum árum eru auðvitað margir. „Fyrsti stóri túrinn okkar var í byrjun ágúst 1985 vorum við með um 220 tonn af flökum sem eru tæplega 600 tonn upp úr sjó að verðmæti 15 milljónir, sem þótti hvorttveggja alveg svakalega mikið, enda stærsti túr sem þá hafði verið gerður aðeins á 16 til 17 dögum. En þessar tölur eru ekki sambærilegar við tölur um verðmæti og afköst í dag, þó einhverjir spekúlantar geti sjálfsagt uppreiknað það. Þetta þóttu mikil afköst á fyrstu árunum, en nú er eru skipin stærri, betri tæki og öll aðstaða um borð betri og því eru afköstin orðin enn meiri en þá.

Um vorið 1984 var ofboðsleg karfa- og grálúðuveiði í Rósagarðinum þar sem við létum reka hálfan sólarhringinn meðan verið var að vinna aflann.  Það var blíða allan tímann, bara slökkt á aðalvélinni og ljósavélin látin ganga.  Þá kom Vigri með umbúðir til okkar, en vorum að verða umbúðalausir. Hann var að koma frá Reyðarfirði og var að fara í siglingu til Þýskalands. Stoppaði í Rósagarðinum  til að láta okkur hafa umbúðirnar. Það var skemmtilegt atvik.“

 

Deila: