Gullkarfi með mexíkósku ívafi

Deila:

Nú leitum við eftir uppskrift hjá Norðanfiski, sem heldur úti uppskriftasíðunni fiskurimatinn.is. Þar er að finna margar uppskriftir að gómsætum fiskréttum.

Höfundur uppskriftarinnar er Oddur Smári Rafnsson. „Matreiðslumaðurinn Oddur Smári Rafnsson hefur víðtæka reynslu úr veitingageiranum og hefur meðal annars starfað í Perlunni, hjá Skútunni í Hafnarfirði og hjá Fiskisögu. Hann starfaði einnig sem yfirmatreiðslumaður á Saffran og hannaði matseðil staðarins. Oddur hefur unnið mikið í vöruþróun fyrir innflutningsfyrirtæki og fjölda veitingastaða á Íslandi. Honum finnst fátt skemmtilegra en að matreiða góðan mat og njóta hans með góðu fólki,“ segir á vefsíðunni.

Innihald:

  • 800 g gullkarfahnakkar
  • 1 stk mexíkóostur
  • 250 ml rjómi
  • 1 teningur grænmetiskraftur
  • Maizena kornsterkja
  • 10 stk kirsuberjatómatar
  • ½ rauðlaukur, sneiddur
  • 1 lúka ferskt kóríander
  • 2 lúkur tortilla-flögur

Aðferð:

Leggið fiskinn í eldfast form, saltið og piprið yfir. Skerið ostinn í teninga og setjið í pott, setjið vatn í pottinn sem fer yfir ostinn, sjóðið þar til osturinn hefur leysts upp. Bætið rjómanum og grænmetiskraftinum út í, fáið upp suðu aftur og þykkið örlítið með ljósum maizena þykki. Hellið helmingnum af sósunni yfir fiskinn, skerið tómatana, laukinn og kóríander og dreifið yfir. Hellið restinni af sósunni yfir, myljið flögurnar og dreifið yfir.

Eldið í 18–20 mín í 200°C heitum ofni. Gott er að setja fiskinn inn í mjúkar tortillur og bæta við sýrðum rjóma og salati.

 

Deila: