-->

Hátækni í hæstu hæðum

Samherji hf. tók á dögunum í notkun nýtt hátæknifiskvinnsluhús á hafnarsvæðinu Dalvík sem búið er öllum þeim vandaðasta tæknibúnaði til nútímavinnslu á fiskafurðum sem er að finna í dag. Sjálfvirkni og tæknilausnir hvert sem litið er enda má fullyrða að um sé að ræða fullkomnustu bolfiskvinnslu heims nú um stundir. Fullbúið tæknibúnaði kostaði húsið um sex milljarða króna og þar er gert ráð fyrir að unnið verði úr 15-18 þúsund tonnum af fiski á ári.

Fjögur ár eru síðan tekin var ákvörðun um að ráðast í nýbyggingu fyrir vinnslu Samherja á Dalvík en skóflustunga var tekin í júní 2018 og hafa framkvæmdir staðið síðan. Atli Dagsson, tæknistjóri landvinnslu Samherja hf., segir að við undirbúning verkefnisins hafi verið horft til margra þátta en ekki síst til framtíðar og þess að hafa húsrými til enn frekari tæknilegrar framþróunar í vinnslunni.

Atli Dagsson

Áskorun að hanna og byggja nýja vinnslu frá grunni

„Á sínum tíma voru uppi hugmyndir um viðbyggingu við vinnsluna sem við vorum með á Dalvík en síðan var horfið frá þeim fyrir fjórum árum og ákveðið að byggja nýtt hús frá grunni. Leiðarljósið í undirbúningnum hefur síðan verið hvernig við getum gert enn betur, bæði hvað varðar gæði framleiðslunnar okkar, afkastagetu, nýtingu hráefnis, aðbúnað starfsfólks og þannig mætti áfram telja. Með þessi atriði til hliðsjónar var það okkar verkefni og áskorun að finna út hvernig húsið ætti að vera. Ekki of stórt en heldur ekki of lítið,“ segir Atli en niðurstaðan varð hús sem er um 9000 fermetrar að stærð. Þar af er vinnslurými um 5.000 fermetrar. Að auki eru stoðrými, skrifstofur, starfsmannarými og annað en að hluta er húsið á tveimur hæðum.

Hausun og flökun

Vatnsskurðarvélarnar opna nýjan heim

„Okkar viðmiðun í hönnuninni var að húsið afkasti að minnsta kosti 12 tonnum af hráefni á klukkustund,“ segir Atli en fyrst og fremst hefur verið vinnsla á þorski og ýsu hjá Samherja á Dalvík. Aðrar tegundir geta bæst við og er hugsað fyrir því í hönnun hússins. Unnið er bæði í ferskar og frystar afurðir, framleiðslan er fjölbreytt í samræmi við óskir viðskiptavina en Atli segir einmitt lykilatriði að geta mætt þeim þörfum sem einstakir viðskiptavinir hafa.

„Við getum sem dæmi verið að vinna í 100 gramma fiskstykki sem einn viðskiptavinur óskar eftir að hafa langt og mjótt meðan öðrum viðskiptavini hentar betur að hafa það stutt og þykkt fyrir sínar pakkningar. Þetta er einmitt hjartað hér í nýju vinnslunni, þ.e. vatnsskurðarvélarnar fjórar þar sem við getum skorið hvert fiskflak í bita út frá því sem viðskiptavinir og markaðurinn kalla eftir hverju sinni,“ segir Atli.

Fjórar samhliða vinnslulínur eru í húsinu, vatnskurðarvél í hverri þeirra. Vélarnar og vinnslukerfið sem við tekur eftir að búið er flaka fiskinn og roðdraga er frá tæknifyrirtækinu Völku ehf. Atli segir að í hönnun vinnslukerfisins á Dalvík hafi komið sér vel sú reynsla sem starfsmenn Samherja hafi fengið af vatnsskurðarvélum og breytingum á síðustu árum í vinnslu ÚA á Akureyri, jafnframt því sem sú vinnslutækniþekking sem byggst hafi upp á Akureyri nýtist vel nú þegar nýja vinnslan á Dalvík fer í gang.

Róbótar sjá um pökkun ferskra afurða.

Mikið flæði með fjórum vinnslulínum

Fyrir leikmanninn hljómar það þannig að tilgangurinn með fjórum samhliða vinnslulínum í nýja húsinu á Dalvík sé að ná auknum afköstum en Atli segir grunnhugsunina í reynd ekki þannig. „Með því að hafa línurnar fjórar má orða það þannig að við getum keyrt hverja línu hægar til að geta gert betur. Við getum með þessum hætti náð góðu flæði í framleiðslunni og góðri yfirsýn með það að markmiði að bæta nýtinguna og alla framleiðslu. Það er þetta stöðuga flæði í vinnslunni sem skapar henni sérstöðu. En að sama skapi getum við líka nýtt okkur þá miklu afkastagetu sem línurnar fjórar hafa ef á þarf að halda. Svigrúmið er því mikið. En engu að síður sjáum við strax á fyrstu vinnsludögunum að fiskurinn fer mjög hratt í gegnum húsið og heldur því mjög vel þeirri kælingu sem hann er búinn að fá frá því hann var veiddur.“

Vinnslulínan er byggð á fjórum vatnsskurðarvélum.

Nánast öll störf breytast með tækninni

Atli segir að í hönnunarferlinu hafi verið lagt upp með góðan aðbúnað starfsfólks en augljóslega má segja að öll störf breytist verulega frá því sem var í gamla húsinu. Sjálfvirknin er mikil. „Tæknin gerir að verkum að mannshöndin kemur mun sjaldnar við fiskinn. Hér þurfum við aldrei að endurraða fiski á færibönd eða slíkt og mörg störf í vinnslunni færist meira yfir í eftirlit og tæknistjórnun. Við getum sagt að flökun og hausun sé í grunninn eins og áður en það sem síðan tekur við er með allt öðrum hætti en var í gömlu vinnslunni,“ segir Atli og talandi um umhverfið á vinnustaðnum þá vekur athygli að á stórum veggflötum í húsinu eru áprentaðar ljósmyndir úr íslenskri náttúru og dýralífi.

„Þetta er dæmi um að við leggjum mikið upp úr að gera vinnustaðinn eins hlýlegan og mögulegt er. Við leggjum líka upp úr góðri hljóðvist í húsinu, nýtum orku frá frystibúnaði til að kynda húsið, allt frárennsli er hreinsað áður en það fer í fráveitu og þannig mætti áfram telja. Það er því horft til mjög margra þátta í flóknu verkefni eins og þessu,“ segir Atli.

Þetta viðtal birtist fyrst í Sóknarfæri, sem Ritform gefur út. Blaðinu er dreift til fyrirtækja í landinu en þá má einnig sjá á heimasíðu Ritforms, https://ritform.is/

 

Attachments

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Góður þorskafli í kantinum fyrir vestan

Ísfisktogarinn Helga María AK kom til hafnar í Reykjavík í vikubyrjun með um 185 tonna afla. Þetta er afrakstur veiðiferðar á Vest...

thumbnail
hover

Sterk framlegð og stefnumarkandi skref til...

„Við erum ánægð með afkomuna á þriðja ársfjórðungi og það sem af er ári og erum áfram bjartsýn á framtíðarhorfur félag...

thumbnail
hover

Nýr Jökull til GPG

Hér er nýr Jökull við bryggju í Reykjavík í dag. Þetta er nýtt skip í flota GPG seafood ehf sem er með starfsstöðvar á Húsav...