-->

Hefur engan áhuga á útgerð drónahers

„Það er ekki mikið rætt um myndavélafrumvarpið svokallaða á þeim fundum, sem ég hef verið að halda víða um land. Það er engin gargandi stemning yfir því. Ég hef sagt að það var sett fram til þess að kalla á viðbrögð þeirra sem starfa í sjávarútveginum. Viðbrögð við því að skoða hvort það sé hægt með einhverjum hætti að nýta tækni til að draga úr reglubyrði, einfalda eftirlit og draga úr kostnaði bæði hins opinbera og þeirra, sem fyrir eftirlitinu verða. Ég get alveg sagt það sem mína skoðun hér hreint út að mér þótti með ólíkindum umsögnin sem kom frá Samtökum atvinnulífsins um þetta mál. Það var ekki ein einasta andskotans uppbyggileg tillaga. Heldur var fyrst og fremst reynt að gera þetta tortryggilegt og gefa til kynna að við ætluðum að gera hér út drónaher til að djöflast í mönnum og horfa eftir hverju skrefi. Það er ekki hugsun mín og hefur aldrei verið.“

Þetta sagði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda, sem haldinn var í lok síðustu viku.

„Við munum vinna áfram með þetta, en munum ekki taka þetta til frekari vinnslu fyrr en við höfum fengið skýrslu Ríkisendurskoðunar um Fiskistofu. Hvernig aðstæður hennar til eftirlits eru, bæði að rýna til gagns hennar störf og vonandi koma fram með hugmyndir eða tillögur til breytinga,“ sagði Kristján Þór.

Myndavélafrumvarpið kom svo til umræðu þegar fundarmenn komu með fyrirspurnir til ráðherrans og ítrekaði hann fyrri orð sín: „Ég hef engan áhuga á því að vera með drónaher vakandi yfir mönnum. Hugmyndin að þessu eftirlitsmyndavéladæmi var sú, að eiga möguleika á því að ef einhver tilvik komu upp, að geta tékkað þau af. Ég efast um að nokkur einasti ríkisstarfsmaður hafi áhuga á því að liggja sínkt og heilagt yfir einhverjum skjá til að fylgjast með því hvað menn eru að gera úti á sjó. Þetta snýst ekki um það. Við þurfum að koma okkur frá þeirra umræðu. Hugsunin í því er ekki sú. Nálgunin í gagnrýninni á frumvarpið minnir mig oft á umræðuna eins og hún er stundum um fiskeldi í dag. Annaðhvort ertu engill eða djöfull. Menn skjótast upp úr skotgröfinni og henda einhverju frá sér og svo hlaupa þeir aftur til baka og segja: „Nú er ég kominn í skjól. Búinn að drulla yfir náungann og allt í fína lagi.“ Svona umræða skilar okkur ekki nokkrum sköpuðum hlutum,“ sagði ráðherrann.

Kristján Þór ræddi einnig veiðigjaldið í ræðu sinni og sagðist vonast til þess að sátt gæti tekist um það mál. Í frumvarpinu væri verið að einfalda reglur um ákvörðun veiðigjalds um leið og stjórnsýslan væri færð til skattayfirvalda. Þá væri dregið nokkuð úr óhjákvæmilegri tímatöf við að sækja upplýsingar til viðmiðunar við ákvörðun gjaldsins. Með frumvarpinu væri hvorki verið að lækka eða hækka veiðigjaldið, eða álagið, heldur fyrst og fremst horft til þess að draga úr sveiflum og auka fyrirsjáanleika við álagningu gjaldsins. „Þegar við ræðum þetta verður að hafa í huga að veiðigjaldið mun í krónum lækka verulega þegar á næsta ári og verður á sjöunda milljarð króna í heildina í stað 11 milljarða eins og það er núna,“ sagði ráðherrann.

Attachments

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Venus í vélarupptekt

Vinna er hafin við reglubundna upptekt á aðalvél uppsjárveiðiskipsins Venusar NS og er verkið unnið í Reykjavík. Venus kom til Rey...

thumbnail
hover

Háafell fær leyfi til aukins eldis

Matvælastofnun hefur veitt Háafelli ehf. rekstrarleyfi til fiskeldis í Ísafjarðardjúpi í samræmi við lög um fiskeldi. Matvælasto...

thumbnail
hover

Misjafnt á kolmunnanum

Kolmunnaveiðin í færeysku lögsögunni hefur verið misjöfn síðustu daga. Í fyrradag var aflinn heldur lélegur en mun betri í gær....