-->

Hefur staðið í sjóskorpunni í 35 ár

„Maður er nú eiginlega búinn að standa í sjóskorpunni í 35 ár, þannig að það er mikil breyting að komast upp úr henni. Staðan er allt önnur, betri yfirsýn og aðstaða fyrir menn og fisk. Við verðum samt sennilega ekkert að róa í verri veðrum þó þessi bátur sé fimm sinnum stærri en sá gamli.“

Þetta sagði Pétur Pétursson, útgerðarmaður og skipstjóri á nýjum Bárði SH sem, kom nýsmíðaður til Hafnarfjarðar á laugardag. Gert er ráð fyrir að þeir hefji veiðar um miðjan desember og stefnt er að því að fara fljótlega í 2000 tonn á ári. Nýi báturinn er smíðaður hjá Bredegaard bátasmiðju í Danmörku. Hann er ekki aðeins sá stærsti sem þeir hafa smíðað, heldur líka langstærsti plastbátur sem smíðaður hefur verið til fiskveiða við Ísland. Hann mælist 26 metra langur, sjö metra breiður og leysir af hólmi bát sem er 30 tonn.

Pétur Pétursson er kominn heim með nýjan bát. Bárður er stærsti plastbáur Íslands og fer senn á veiðar.

„Heimferðin gekk ljómandi vel. Við fórum fyrst frá Rödbyhavn til Hansthlolm. Þar var settur búnaður á dekkið og síðan héldum við frá Hanstholm til Færeyja og þurftum að bíða af okkur veður þar í þrjá daga. Það var norðaustan bræluskítur. Svo fórum við þaðan og hrepptum leiðindaveður fyrsta sólarhringinn, en svo þegar við sáum Ísland datt hann niður í rjómablíðu stillu og stjörnubjart. Fengum einmuna blíðu hérna þegar við komum upp að landinu.

Byrja um miðjan desember

„Við byrjum á netum um miðjan desember. Það er verið að smíða í hann netaspil hjá K.N. vélsmiðju og setja niður krapavél og breyta smávegis. Við verðum svo á netum fram á vor. Svo tökum við voðina, en við erum reyndar nýgræðingar á því sviði, en við hljótum að ná einhverjum tökum á henni eins og aðrir. Við erum með um 1.000 tonna kvóta kvóta í ígildum, mest í stóra kerfinu. Það  gæti farið langt í að duga þetta fiskveiðiárið. Við höfum líka stundum verið að fiska fyrir aðra og leigt og keypt aflaheimildir eins og við höfum getað. Við tókum ansi mikið í vetur á gamla Bárð frá því um áramót og fram á sumar, um 1.700 tonn upp úr sjó af óslægðu. Það gekk ljómandi vel. Við getum tekið mun meira á þennan og stefnum á það að fara í 2.000 tonn. Það er alveg inni í myndinni. Það er alltaf stefnt að því að kaupa meiri heimildir. Það er vonlaust að vera í útgerð nema með nægar heimildir,“  segir Pétur.

 

Attachments

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Skötuselur í karrý og kókoshnetumjólk

Svona rétt fyrir jólin er kannski gott að hafa mat frábrugðinn því sem tíðkast yfir hátíðirnar. Fyrir þá, sem eru bæði sólg...

thumbnail
hover

Þykir ofsalega vænt um íslenskan sjávarútveg

Maður vikunnar byrjaði 13 ára að slægja fisk hjá Stáli og hníf á Ísafirði. Síðan hefur hann verið beintengdur sjávarútveginu...

thumbnail
hover

Samherji birtir pósta máli sínu til...

Greiðslur Kötlu Seafood til ERF 1980 árið 2014 voru til að fá kvóta frá Fishcor, ríkisreknu sjávarútvegsfyrirtæki í Namibíu, ...