-->

Hendið svo fiskinum!

Í tilefni hrekkjavökunnar bregðum við út af vananum og sláum þessu upp í svolítið grín. Uppskriftir að fiskréttum geta verið mjög mismunandi. Breska sjávarútvegsblaðið Fishing News efndi á sínum tíma til samkeppni um uppskriftir að sjávarréttum, en fékk eftir það nokkra bakþanka.

Skýringin eru eftirfarandi uppskriftir:

Sú fyrri barst frá Douglas Stoker sjómanni frá Essex; Allt sem þarf er ein gedda, aðgerð með haus og sporði og tvær góðar rauðvínflöskur. Opnið báðar flöskurnar og látið þær anda. Leggið gedduna á stórt stykki af álpappír með smjörklípu og hellið smávegis af víni yfir fiskinn. Ekki of mikið, aðeins nóg til að fiskurinn lykti ekki illa þegar hann er eldaður. Bætið við smávegis af salti, pipar og sítrónusafa. Pakkið fiskinum inn í álpappírinn og eldið við vægan hita í góðum ofni. Fáið ykkur vínglas og þegar búið er úr flöskunni er fiskurinn tilbúinn. Opnið ofninn og takið fiskinn út og hendið honum beint í ruslið. Geddan er full af beinum og bragðast eins og mold. Drekkið síðan úr seinni flöskunni. Þessari uppskrift má deila með öðrum.

Geoff Foale frá Devon sendi þessa uppskrift inn, en hann fékk hana hjá gömlum sjómanni frá Salcombe fyrir 30 árum. Hún er leiðbeining um það hvernig best er að matbúa beitukóng; Sjóðið beitukónginn í 15 mínútur. Þegar kuðungurinn er orðinn kaldur er snigillinn losaður úr honum. Skerið hann niður í þunnar sneiðar á skurðarbretti úr við, helst úr eplatré. Stráið fínt saxaðri steinselju yfir, salti og nýmuldum pipar. leggið rakan klút yfir og geymið í kæli í tvo daga. Eftir það er kuðungurinn settur í bréfpoka og hent í ruslið. Borðið síðan brettið. Það mun bragðast betur og er mýkra undir tönn en beitukóngurinn.

Fishing News hafa ákveðið að setja það skilyrði fyrir þátttöku að uppskriftin leiði til æts sjávarréttar.

Það má lengi hafa gaman af hlutunum, en það er staðreynd að fiskur er einhver hollasti matur sem um getur. Það er því full ástæða til að hvetja fólk til fiskáts. Neysla á fiski getur dregið úr hættu á ýmsum sjúkdómum og ómega-3 fitusýrurnar leiða til þess að fóstur þroskast betur og að börnin verði gáfaðri. Víst er nokkuð um mengun af mannavöldum í fiski eins og díoxín og PBC efni, sérstaklega þar sem mengun í innhöfum er mikil eins í Eystrasalti. Eiturefnin eru þó í það litlum mæli í fiskinum að þau skaða mannfólkið ekki. Jákvæðu áhrifin eru miklu meiri en þau neikvæðu. Fiskur af Íslandsmiðum er mjög hollur og eiturefni í honum langt undir hámarksmörkum. Áróður gegn fiskáti er því að öllum líkindum sprottinn af annarlegum ástæðum, viðskiptalegum eða öðrum hvötum.

 

 

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Sea Data Center verður gagnaveitandi fyrir...

Sea Data Center og Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum (VSV) hafa gert samkomulag þess efnis að Sea Data Center mun veita VSV aðgang að g...

thumbnail
hover

Samherja Holding veitt undanþága frá tilboðsskyldu...

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur veitt Samherja Holding, systurfélagi Samherja, undanþágu frá tilboðsskyldu í Eimskipafé...

thumbnail
hover

Þarinn tugmilljarða virði?

Íslenski sjávarklasinn hefur birt nýja greiningu um tækifæri í þaraskógum við Ísland á bæði íslenski og ensku. Þar er spurt ...