Hlýnun virðist hafa meiri áhrif á fiska en áður var talið

243
Deila:

Hlýnun jarðar virðist hafa meiri áhrif á fiska en áður var talið. Vísindamenn hafa nú glöggvað sig betur á því með hvaða hætti hlýnun raskar vistkerfi sjávar. Samkvæmt nýrri grein í tímaritinu Science hafa hrygnandi fiskar og seiði mun þrengra hitaþolsbil en fullvaxta fiskar. Frá þessu er greint á ruv.is

Þar til nýlega höfðu vísindamenn aðeins rannsakað áhrif hlýnunar á fullvaxta fiska og gert var ráð fyrir að tvö til þrjú prósent þeirra yrðu í of heitum sjó árið 2100. Ný rannsókn þýskra vísindamanna leiðir í ljós að áhrif hlýnunar sjávar eru mun meiri á hrygnandi fiska og seiði en á fullvaxta fiska.

Samkvæmt rannsókninni má gera ráð fyrir að hitastig sjávar verði of hátt fyrir um það bil fjörutíu prósent tegunda hrygnandi fiska og seiða árið 2100. Tegundirnar gætu því dáið út eða þurft að breyta lifnaðarháttum. Vísindamennirnir spá því að ufsi, lax, makríll og sverðfiskur séu meðal þeirra tegunda sem gætu orðið hvað verst úti.

Hlýnun veldur breytingum á útbreiðslu tegunda við Ísland

Aðspurður hvaða áhrif niðurstöðurnar gætu haft á sjávarlíf í kringum Ísland segir Guðjón Sigurðsson, fiskifræðingur á botnsjávarsviði Hafrannsóknarstofnunar, að Íslendingar séu heppnir að hafa stórt og fjölbreytt hafsvæði umhverfis landið. Hlýnun sjávar valdi breytingu á útbreiðslu tegunda við strendur Íslands. „Einhverjar tegundir munu hörfa norður og kannski koma nýjar á suðurslóðir í staðinn. Loðnan er nú þegar farin að hörfa norður og byrjuð að hrygna þar í meira mæli. Ýsan hefur færst vestur og norður fyrir land á síðustu tuttugu eða þrjátíu árum.“ Þá segir hann að hlýnun jarðar gæti hafa ýtt undir hrun rækjustofnsins.

Fyrir sunnan landið hefur suðlægum tegundum fjölgað. „Makríll kom fyrst hingað sem flækingur en hefur nú komið á hverju ári frá árinu 2005 eða 2006. Það sama á við um loðháf, svartgóma og litla brosma.“

Þorskar sérstaklega viðkvæmir

Guðjón segir mikilvægt að íslenskur sjávarútvegur sé sveigjanlegur. „Þorskar eru sérstaklega viðkvæmir fyrir hitastigsbreytingum, og við treystum auðvitað mikið á þorskfiska. En aðrar tegundir gætu komið í staðinn. Svo er bleikjan norræn tegund sem gæti átt erfitt í ferskvatni ef hlýnar mikið. Hún á reyndar undir högg að sækja nú þegar“.

 

Deila: