-->

Höggið á rækjuiðnaðinn yrði alfarið á ábyrgð Alþingis

„Sú hugmynd að endurvekja gamla rækjukvótann virðist hvíla á því að framseljanlegur kvóti sé sérstakt markmið fiskveiðistjórnunarlaga, sem sé æðra markmiðum um hagkvæman sjávarútveg. Það megi því endurvekja gamla rækjukvótann, þótt það leiði til óhagkvæmni og óvissu í rækjuiðnaði. Með þessu er hlutunum snúið á hvolf og sérhagsmuna gætt umfram þjóðarhags,“ þetta segir meðal annars í grein eftir Arnar Kristjánsson, útgerðarmann Ísborgarinnar, og Jón Jónsson hæstaréttarlögmann, sem unnið hefur að málefnum veiðandi rækjuútgerða. Greinin er birt á heimasíðu Bæjarins besta á Ísafirði. 

Í greininni segja þeir ennfremur: „Úthlutun rækjukvóta til annarra en þeirra sem hafa veiðireynslu mun leiða til röskunar á rækjuiðnaði. Einungis vegna rækjuvinnslu Kampa í Ísafjarðarbæ hefur verið nefnt að yfir 100 störf, tengd vinnslu og veiðum, verði sett í uppnám.
Þingmenn geta ekki vísað til þess að áhrifin verði vegna náttúrlegs aflabrests eða rekstrarlegra ákvarðana útgerðarfélaga. Höggið á rækjuiðnaðinn yrði alfarið á ábyrgð Alþingis. Núverandi rækjuiðnaður hefur byggst upp á því að rækjuvinnslur hafa verið í samvinnu við rækjuútgerðir um veiðar til vinnslunnar. Skapast hefur hagkvæmt fyrirkomulag á rækjuveiðum og rækjuiðnaðurinn náð sér á strik aftur, eftir þrengingar áratugarins á undan. Þessi þróun var hafin fyrir 2010, t.a.m. var 87% af rækjuaflanum veiddur af leigukvóta fiskveiðiárið 2009-2010. Stór hluti útgerðaraðila sem hafði rækjukvóta fyrir 2010 hafði ekki veitt rækju í 6-8 ár þar á undan. Kvótinn var notaður í tegundatilfærslur, auk þess sem sérlög giltu til verndar kvótahöfum frá 2005 til 2009, sem fólu í sér að rækja var undanþegin veiðiskyldureglum og veiðigjöld felld niður af aflamarki. Kvótahafar höfðu þá réttindi, en báru engar skyldur.
Samþykkt núverandi frumvarps felur í sér að stór hluti rækjukvótans verður úthlutað á skip sem ekki hafa veitt rækju í 8-12 ár. Síðasta árið sem rækja var í kvóta höfðu 76 skip aflamark í rækju, en þar af veiddu 10 skip! Á síðustu 3 árum hafa um 40 skip veiðireynslu í rækju. Þar á meðal eru skip sem höfðu kvóta áður og hafa kosið að stunda rækjuveiðar, auk skipa sem ekki áttu kvóta fyrir.
Verði rækjukvóta úthlutað til fyrri kvótahafa verður klippt á tengsl rækjuvinnslu við rækjuútgerðir. Veiðandi rækjuútgerðir verða fyrir stórkostlegri skerðingu atvinnuréttinda, meðan að útgerðir sem hættar eru rækjaveiðum fá kvóta. Óvíst er hvort leigukvóti verður aðgengilegur eða hvort veiðarnar beri leigu. Leigugreiðslur yrðu reyndar happafengur fyrir útgerðir sem hættar eru að veiða rækju og fengju úthlutað kvóta vegna ákvörðunar Alþingis um að þær skuli samt teljast ,,rækjuútgerðir“, eða öllu heldur ,,rækjukvótaútgerðir“.
Áhrifin á Ísafjarðarbæ verða hvað stórkostlegust. Rækjuvinnslan Kampi hefur bent á að hún tók við ríflega 2.500 tonnum af úthafsrækju fiskveiðiárið 2012-13. Frumvarpið fæli í sér að viðskiptabátar félagsins fá í sinn hlut um 400 tonn, m.v. 5.000 tonna heildaraflamark.
Stjórnmálamenn hafa ekki gagnrýnt uppbyggingu rækjuiðnaðarins á Vestfjörðum á sl. 3-4 árum. Það verður því að skoða aðra þætti um ástæður fyrir framkomnu frumvarpi.“
Greinina má sjá í heild á slóðinni http://bb.is/Pages/82?NewsID=187412