Hópur fjárfesta á Akranesi hefur keypt Norðanfisk ehf.

219
Deila:

Skrifað hefur verið undir kaupsamning þar sem útgerðarfélagið Brim hf. selur hópi fjárfesta allt hlutafé í Norðanfiski ehf. Fyrirtækið hefur starfsstöð sína við Vesturgötu 5 á Akranesi og eru starfsmenn um þrjátíu talsins. Norðanfiskur sérhæfir sig í framleiðslu, sölu og dreifingu á sjávarfangi til veitingahúsa á innanlandsmarkaði ásamt sölu neytendapakkninga í verslunum um allt land. Greint frá þessu á fréttavefnum skessuhorn.is

Kaupandi fyrirtækisins er nýtt eignarhaldsfélag í eigu tíu aðila sem allir eiga rætur á Akranesi auk framkvæmdastjóra Norðanfisks, Sigurjóns Gísla Jónssonar, sem áfram mun stýra fyrirtækinu. Formaður stjórnar verður Inga Ósk Jónsdóttir en hún og eiginmaður hennar Gísli Runólfsson eru stærstu hluthafar í eignarhaldsfélaginu sem kaupir. Auk framangreindra hluthafa koma að nýju eignarhaldsfélagi: Bifreiðastöð ÞÞÞ, Eignarhaldsfélag VGJ í eigu hjónanna Eiríks Vignissonar og Ólafar Ólafsdóttur, hjónin Karen Jónsdóttir og Kristján Baldvinsson, Gestur Breiðfjörð Gestsson auk fjögurra jafnaldra úr árgangi 1971, þeirra Sævars Freys Þráinssonar, Harðar Svavarssonar, Jóns G Ottóssonar og HH verktaks sem er í eigu Hannesar Birgissonar og Hjartar Lúðvíkssonar.

„Það er öflugur hópur sem er að kaupa félagið Norðanfisk ehf. Við erum að veðja á þá framtíðarsýn sem Sigurjón Gísli Jónsson framkvæmdastjóri hefur mótað fyrir fyrirtækið. Norðanfiskur er traust og gott félag. Við teljum afar mikilvægt að Norðanfiskur verði áfram á Akranesi og við sjáum vissulega tækifæri til sóknar,“ sagði Inga Ósk Jónsdóttir formaður stjórnar, sem nú tekur við búsforráðum í Norðanfiski af Brimi. Kristján Þ. Davíðsson stjórnarformaður Brims hf. gat þess við undirritun samningsins að Norðanfiskur ætti langa og farsæla sögu á Akranesi og fagnaði hann því að hópur heimafólks tæki nú við og ætlaði að tryggja rekstur áfram á sama stað.

Fram kom við undirritun samningsins að ráðgjafar í söluferlinu hafi verið Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri, KPMG og Örn Gunnarsson hjá Lex lögmannsstofu. Íslensk verðbréf var auk þess ráðgjafi og stýrði söluferlinu fyrir hönd Brims. Kaupsamningur um Norðanfisk er undirritaður með fyrirvara um áreiðanleikakönnun. Komi ekkert út úr slíkri könnun er gert ráð fyrir að gengið verði formlega frá viðskiptunum á næstu vikum. Kaupverð er trúnaðarmál.

 

Deila: