-->

Horfur á aukinni nýliðun þorsks og ýsu

Niðurstöður stofnmælingar Hafrannsóknastofnunar í mars benda til góðs ástands helstu botnfisktegunda og horfur eru á aukinni nýliðun í veiðistofna þorsks og ýsu. Stofnvísitala þorsk er annað árið í röð sú hæsta frá upphafi og útbreiðsla þorsks var mikil. Rannsóknir benda til að árangur ýsu frá 2014 sé sterkur.
Stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum (marsrall) fór fram í 32. sinn dagana 24. febrúar til 19. mars. Fjögur skip tóku þátt í verkefninu; rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson og togararnir Bjartur NK og Ljósafell SU. Togað var með botnvörpu á tæplega 600 stöðvum allt í kringum landið og alls tóku um 90 manns þátt í verkefninu.
Helstu markmið verkefnisins eru að fylgjast með breytingum á stærð, útbreiðslu og líffræðilegu ástandi botnlægra fiskistofna og hitastigi sjávar á landgrunninu. Hér er samantekt á þeim niðurstöðum sem liggja fyrir.
Þorskur
Hafró stofnvísitala þorsks í mars 2016
Útbreiðsla þorsks var meiri en í mörgum fyrri stofnmælingum í mars og góður afli fékkst á stöðvum allt í kringum landið.  Mest fékkst af þorski utarlega á landgrunninu, frá Víkurál norður og austur um að Hvalbakshalla. Stofnvísitala þorsks mældist svipuð og fyrir ári síðan. Vísitölur síðustu tveggja ára eru þær hæstu frá upphafi rannsóknanna árið 1985, meira en tvöfalt hærri en árin 2002-2008.
Hækkun vísitölunnar má einkum rekja til aukins magns af stórum þorski. Í ár var vísitala allra lengdarflokka stærri en 45 cm yfir meðaltali alls rannsóknatímabilsins, en minna mældist af 25-40 cm þorski sem rekja má til lítils árgangs frá 2013.
Árgangur 2014 mældist stór líkt og í síðustu stofnmælingu og fyrsta mat á 2015 árgangi bendir til að hann sé einnig stór.
Meðalþyngd 5 ára þorsks og yngri mældist undir meðallagi, en um eða yfir meðallagi hjá eldri fiski.
Magn fæðu í þorski var með því mesta sem sést hefur í tvo áratugi. Þar munar mest um loðnu sem var langmikilvægasta bráð þorsksins eins og ávallt á þessum árstíma.
Mikið var af loðnu í mögum þorsks út af Breiðafirði, Vestfjörðum, Húnaflóa við Norðausturland og suðurströndina. Af annarri fæðu má helst nefna kolmunna, síld, síli og ýmsar tegundir fiska og krabbadýra.
Ýsa
Hafró Stofnvísitala ýsu mars 2016
Stofnvísitala ýsu hækkaði verulega á árunum 2002-2006 í kjölfar góðrar nýliðunar og aukinnar útbreiðslu norður fyrir land. Næstu fjögur árin þar á eftir fór vísitalan lækkandi og mældist nú svipuð því sem verið hefur frá 2010.
Lengdardreifing ýsunnar sýnir að 30-58 cm ýsa er undir meðaltali í fjölda, en stærri ýsa er yfir meðaltali. Lengdardreifing og aldursgreiningar benda til að árgangurinn frá 2014 sé sterkur, en hann kom í kjölfar sex lélegra árganga. Fyrsta mæling á árgangi 2015 bendir til að hann sé undir meðalstærð.
Ýsan veiddist á landgrunninu allt í kringum landið en meira fékkst af ýsu fyrir norðan land en sunnan. Breyting varð á útbreiðslu ýsunnar fyrir rúmum áratug, en árin 1985-1999 fékkst alltaf meira af ýsu við sunnanvert landið.
Meðalþyngd ýsu eftir aldri hefur farið vaxandi á undanförnum árum og mældist nú um og yfir meðaltali.
Magn fæðu í ýsu var minna en undanfarin ár. Loðna var rúmlega helmingur af fæðu stærstu ýsunnar, en smærri ýsa étur minna af loðnu en hlutfallslega meira af botndýrum svo sem slöngustjörnum og burstaormum.
Gullkarfi
Gullkarfi fékkst víða en mest djúpt út af Faxaflóa, Breiðafirði og sunnanverðum Vestfjörðum.
Vísitala gullkarfa í marsralli hefur farið hækkandi frá 2008 og mælingar síðustu sjö ára hafa verið þær hæstu frá 1985. Í seinni tíð hefur sífellt minna fengist af smákarfa undir 30 cm.
Steinbítur
Stofnvísitala steinbíts hefur hækkað síðustu þrjú ár eftir að hafa verið í lágmarki árin 2010-2013 (14. mynd). Fjöldi 15-65 cm steinbíts var undir meðaltali en magn steinbíts stærri en 65 cm var hins vegar yfir meðaltali. Steinbítur fékkst víða, en mest á Vestfjarðamiðum eins og oftast áðu.
Flatfiskar
Vísitölur langlúru og þykkvalúru fóru lækkandi fyrstu árin í marsrallinu en hækkuðu á árunum eftir aldamót. Vísitala langlúru mældist svipuð og undanfarin fimm ár en vísitala þykkvalúru hefur verið sveiflukennd og lækkandi frá árinu 2006.
Vísitala lúðu í stofnmælingunni hrundi á árunum 1986-1990 og hefur haldist lág síðan. Mjög lítið fékkst af lúðu í marsralli árin 2008-2014 og stofnvísitalan þessi ár var um 20 sinnum lægri en árin 1985-1986. Síðustu tvö ár hefur orðið vart við vaxandi magn af smálúðu og hækkandi vísitölu má rekja til lúðu sem nú er 50-70 cm löng.
Stofnvísitala skarkola hefur smám saman farið hækkandi frá því hún var í lágmarki á árunum 1997-2002. Vísitalan nú er þó aðeins um helmingur þess sem hún var að meðaltali fyrstu fjögur ár stofnmælingarinnar.
Vísitölur sandkola og skrápflúru hafa verið lágar í undanfarinn áratug og svo var einnig í stofnmælingunni ár.
Aðrar algengar tegundir
Mikið fékkst af grásleppu í marsralli á árunum 1985-1990, en um helmingi minna næstu tíu árin. Upp úr aldamótum fór stofnvísitalan hækkandi en lækkaði síðan aftur til ársins 2013. Vísitala grásleppu hefur síðan hækkað og mældist nú svipuð og í fyrra.
Stofnvísitala hlýra fór hækkandi frá 1990-1996 en hefur lækkað mikið síðan þá. Vísitölur áranna 2010-2016 eru þær lægstu frá upphafi. Lítið fékkst af hlýra undir 50 cm líkt og undanfarin ár.
Vísitala keilu hefur haldist há frá árinu 2004, líkt og var árin 1985-1992. Vísitalan í ár samanstendur að mestu af 45- 65 cm keilu, en keila á lengdarbilinu 15-35 cm var einnig áberandi.
Vísitala löngu hækkaði á árunum 2003-2007 eftir að hafa verið í lágmarki áratuginn þar á undan. Stofnvísitalan 2016 er há líkt og undanfarinn áratug, en lítið mældist af löngu undir 50 cm.
Magn skötusels hefur ekki mælst minna frá árinu 2002, en er samt meira en fyrstu 15 ár stofnmælingarinnar. Allir árgangar skötusels frá 2008 hafa mælst slakir í samanburði við árgangana frá 1998-2007 og fyrsta mæling á árganginum frá 2015 bendir til að hann sé lítill.
Stofnvísitala ufsa hækkaði lítið eitt frá fyrra ári og er nú svipuð og að meðaltali undanfarinn áratug. Hækkun vísitölunnar í ár má rekja til óvenju mikils magns af ufsa sem er um 50 cm langur. Taka þarf vísitölum ufsa með þeim fyrirvara að þær ráðast oft af miklum afla í stökum togum og staðalfrávik mælinganna eru þá há.
Suðlægar tegundir
Upp úr aldamótum fór magn ýmissa suðlægra tegunda í marsralli vaxandi við sunnanvert landið, m.a. silfurkóði, svartgómu og litlu brosmu. Af þeim fengust aðeins stakir fiskar fyrstu 15 árin en árin 2010-2014 var fjöldi þeirra talinn í hundruðum. Mjög lítið fékkst af silfurkóði í ár, en svartgóma og litla brosma virðast hafa fest sig í sessi.
Botnhiti
Hitastig sjávar við botn mældist að meðaltali hátt líkt og undanfarin ár. Í hlýsjónum við sunnan og suðvestanvert landið var botnhiti þó í lægri kantinum miðað við árin 2003-2014. Við Vestfirði var hitastig lítið eitt hærra en árin 2014 og 2015, en lægra en fjögur ár þar á undan. Við norðan og norðaustanvert landið var botnhiti nálægt meðaltali hlýju áranna frá 1996.
Lokaúttekt á niðurstöðum og tillögur Hafrannsóknastofnunar um aflamark fyrir næsta fiskveiðiár verða kynntar í byrjun júní.
Tilkynningu Hafró má sjá í heild á slóðinni:
http://www.hafro.is/undir.php?ID=19&REF=3&fID=22672

Attachments

Comments are closed.