Hörpudiskur með basilíku og hvítlauk

198
Deila:

Þessi réttur er kjörinn fyrir elskendur á öllum aldri. Þó Valentínusardagurinn sé liðinn eru í raun allir dagar dagar elskenda. Gera má sérlega rómantískan kvöldverð út þessum rétti eða hafa hann sem forrétt. Hörpudiskinn má kaupa innfluttan, frystan en gæta ber þess að oft er ansi mikil íshúð á honum og þarf að gera ráð fyrir því þegar hörpuskelin er keypt.

Innihald:

12 stórir hörpudiskbitar samtals um 500g

2 tsk. hveiti

Salt og nýmalaður svartur pipar

2 msk. matarolía

1 ½ msk. smjör

2 hvítlauksgeirar, marðir

1 bolli fersk basilíka

3 til 4 sítrónusneiðar

Aðferð:

Byrjið á því að þíða skelfiskinn og þurrkið hann síðan vel. Stráið smávegis af hveiti yfir bitana öðru megin og kryddið með salti og pipar.

Hitið stóra pönnu upp að meðalhita og hellið olíunni á pönnuna. Þegar olían er orðin snarpheit fer skelfiskurinn á pönnuna, kryddaða hliðin niður. Steikið bitana í 2-3 mínútur eða þar til þeir eru byrjaðir að brúnast. Stráið smávegis af hveiti og kryddi yfir á meðan. Snúið þá bitunum við þegar þeir eru orðnir lausir á pönnunni.

Bætið smjöri og hvítlauk á pönnuna, hrærið saman og steikið í um 2 mínútur. Takið pönnuna af hitanum og bætið basilíkunni út á hana og hrærið aðeins. Berið fram með sítrónusneiðum, fersku salati og ristuðu brauði. Kælt hvítvín myndi henta vel með þessum rétti, noti menn vín á annað borð.

Ath. Hveitið er notað til að skelbitarnir brúnist betur, en því má auðvitað sleppa.

Deila: