-->

Hrefnuveiðisvæði stækkað á ný?

„Við erum orðnir langeygir eftir ákvörðun sjávarútvegsráðherra Sgurðar Inga Jóhannssonar um það hvort hrefnuveiðisvæðið á Faxaflóa verði stækkað á ný eða ekki. Við vorum á fundi með honum í fyrradag og þá gaf hann okkur fastlega í skyn að hann myndi draga skerðingu svæðisins til baka,“ segir Gunnar Bergmann, framkvæmdastjóri Hrefnuveiðimanna í samtali við kvotinn.is
Hann sagði að ráðherrann væri búinn að ræða við hagsmunaaðila og Hafrannsóknastofnunina og engin rök væru fyrir ákvörðun Steingríms J. Sigfússonar, forvera hans, fyrir því að stækka hið friðaða svæði fyrir hrefnu a Faxfló. Gunnar segir það mikilvægt fyrir veiðina að það verði ákveðið sem allra fyrst hvað verði gert.

Nú um miðjan dag var Hrafnreyður KÓ að taka sína fimmtu hrefnu á vertíðinni fyrir norðan land. Veiðarnar hafa verið fyrir utan Málmey og dýrin stór og góð. Til þessa hefur hvalnum verið landað á Siglufirði og hann fluttur suður til vinnslu. Eins og er er því nóg framboð á hrefnukjöti hér innan lands, en tólf hrefnur hafa veiðst það sem af er vertíð.
Á meðfylgjandi mynd er verið að skera hrefnu á bátnum Nirði á Faxaflóa árið 2008. Ljósmynd Hjörtur Gíslason