Hrognin söltuð í Grindavík

Deila:

Það var mikið um að vera í starfsstöð Vísis í fyrrum húsakynnum Gjögurs í Grindavík í lok síðustu viku. Þar var verið að salta þorskhrogn í tunnur og pakka lönguhrognum til frystingar. Auk þess er þar saltaður afskurður og þunnildi af þorski og ýsu, afli tveggja báta í litla kerfinu slægður og þorskur hausaður til útflutnings.

Þórarinn Ólafsson stýrir ferðinni við hrognavinnslu Vísis.

Þórarinn Ólafsson er verkstjóri á staðnum. „Þegar við byrjuðum að salta hrognin vorum við í 4 til 6 tunnum á klukkutíma, en nú erum við komnir í 12 til 14 tunnur á sama tíma. Við erum búnir að ná tökum á þessu og síðan þurfum við að tæknivæða okkur aðeins betur og því verður væntanlega lokið næsta vetur, þegar ný hrognavertíð hefst. Þessari fer senn að ljúka. Hrognin af snurvoðarbátunum eru farin að renna dálítið, en þau eru ekki eins langt komin af línubátunum,“ segir Þórarinn.

Þessi hrogn eru fryst og fara til Spánar.

Þeir eru að vinna hrogn úr þorski og löngu, en ýsuhrogn fara á markað. Hrognin kom af fimm stórum línubátum Vísis og tveimur í litla kerfinu. Þórarinn segir að langt sé síðan hrogn hafi verið söltuð í Grindavík. Líklega um 25 ár síðan síðast. Áður fóru þau á markað.

Sex manns vinna við hrognin og hefur vinnslan á dag verið allt að 60 tunnur, en gæti vissulega farið í meira, væri nóg af hrognum.

Þessi afskurður fer í salt og síðan suður til Spánar og Portúgal.

Auk þess er svokallað „migasa“ unnið á þessari starfsstöð Vísis, en það er afskurður af  þorski og ýsu og þunnildi, sem söltuð eru á markað fyrir Spán og Portúgal.  Þá er afli smábátanna tveggja slægður hjá þeim og loks er þorskur hausaður fyrir markað í Þýskalandi.

„Það er nóg að gera hérna og okkur finnst það gaman,“ segir Þórarinn.

Myndir Hjörtur Gíslason.

Deila: