Humarafli aldrei minni

101
Deila:

Humarveiðar eru enn í lágmarki. Afli hefur aldrei verið minni á sama tíma árs og nú. Veiðiheimildir hafa aldrei verið minni, og enn eitt árið í langri röð ára, lítur út fyrir að kvótinn náist ekki.

Átta bátar hafa stundað veiðarnar og er samanlagður afli þeirra aðeins 34,3 tonn, þegar um mánuður lifir af fiskveiðiárinu. Leyfilegur heildarafli eftir tilfærslur frá síðasta ári er 53,2 tonn. Því eru 18,9 tonn enn óveidd og nokkrir bátanna hættir veiðum.

Humarstofninum hefur farið hrakandi ár frá ári í mörg ár. Lítil sem engin nýliðun hefur átt sér stað og enn hefur ekki fengist skýring á því til þessa þrátt fyrir töluverðar rannsóknir.

Bátarnir sem landað hafa afla í ár samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu, eru Jón á Hofi ÁR með 7,4 tonn, Þórir SF, með 6,2 tonn, Skinney SF með 5,9 tonn, Fróði ÁR með 5,2 tonn. Brynjólfur VE með 4,2 tonn, Drangavík VE með 3,5 tonn og Inga P SH með 1,3 tonn.

Miðað er við slitinn humar, þegar aflatölur eru gefnar upp, þrátt fyrir að humrinum sé að langmestu leyti landað óslitnum og hann fluttur þannig utan.

Deila: