Humarstofninn að hruni kominn

Deila:

Humarstofninn hefur verið á hraðri niðurleið undanfarin ár. Síðasta vertíð var sú slakasta frá upphafi veiða og enn syrtir í álinn á þessu fiskveiðiári. Enginn kvóti hefur verið gefinn út, en skipin eru að vinna á heimildum yfirfærðum frá síðasta ári. Hafrannsóknastofnun hefur lagt til að afli á þessu almanaksári verði ekki meiri en 235 tonn af heilum humri. Það er rúmlega einn tíundi hluti aflans fiskveiðiárið 2010/2011, sem varð þá 2.259 tonn.

Aðeins sex bátar hafa landað humri

Þetta er gífurlegt áfall fyrir útgerðir frá helstu humarhöfnum landsins, sem eru Þorlákshöfn, Hornafjörður og Vestmannaeyjar. Bátum á humri hefur ekki aðeins fækkað hratt, heldur eru verkefnin fyrir þá sem enn eru að, miklu minni en áður. Á þessu ári hafa aðeins sex bátar landað humri fram að 20. maí og er aflinn 133 tonn af heilum humri. Bátur Skinneyjar-Þinganess,  Þinganes ÁR, er með mestan afla tæplega 50 tonn.

Á síðasta fiskveiðiári varð aflinn 812 tonn miðað við heilan humar og níu bátar lönduðu þá humri. Sé að gamni farið aftur til aldamóta var afli fiskveiðiársins þá 1.342 tonn af heilum humri og voru humarbátarnir þá ríflega 30. Einum áratug síðar var humaraflinn 2.158 tonn og stunduðu þá 18 bátar humarveiðar.

Unglingarnir fá minni vinnu

Þessi aflabrestur kemur ekki aðeins niður á útgerðinni. Vinnslan geldur hans auðvitað í svipuðum mæli. Humar er mannaflafrek vinnsla og hafa margir tugir ungmenna jafnan fengið vinnu í humrinum á sumrin. Nú verður lítið um það. Markaðir fyrir heilan humar í sunnanverðri Evrópu hafa að mestu verið í eigu íslenskra útflytjenda. Nú verður engin leið að svara eftirspurn þaðan og verði ástandið viðvarandi er hætt við að þeir markaðir hreinlega tapist. Þá blasir það við að framboð á humri innan lands verður lítið í sumar.

Tillögur Hafró

Hafrannsóknastofnun ráðleggur að afli ársins 2019 verði ekki meiri en 235 tonn svo fylgjast megi með stærðarsamsetningu og dreifingu stofnsins. Jafnframt leggur stofnunin til að allar humarveiðar verði bannaðar í Jökuldjúpi og Lónsdjúpi til verndar uppvaxandi humri. Til að minnka álag á humarslóð ráðleggur Hafrannsóknastofnun einnig til að veiðar með fiskibotnvörpu verði bannaðar á afmörkuðum svæðum í Breiðamerkurdjúpi, Hornafjarðardjúpi og Lónsdjúpi.

Þéttleiki humarholna við Ísland (0.07 holur/m2) mælist nú með því lægsta sem þekkist meðal þeirra humarstofna sem Alþjóðahafrannsóknaráðið veitir ráðgjöf fyrir. Samkvæmt eldri stofnmatsaðferð (VPA), sem beitt var til mats á afrakstursgetu humarstofnsins, er stofnstærð 2019 metin einungis um þriðjungar af gátmörkum (Bpa). Lengdarmælingar úr afla og stofnmælingum benda einnig til nýliðunarbrests á undanförnum árum. Veiðar á 235 tonnum árið 2019 ættu að gefa mynd af útbreiðslu og stærðarsamsetningu stofnsins. Hafrannsóknastofnun mun leita eftir auknu samstarfi við útgerðir um vöktun á humarstofninum, t.d. með sýnatökum og skipulagi veiða.

Stofnmatið í ár er byggt er á stofnmælingu þar sem humarholur eru taldar með neðansjávarmyndavélum og er það í þriðja sinn sem slík stofnmæling er framkvæmd. Stofnmælingin er talin ná utan um öll þau svæði þar sem humar finnst í veiðanlegu magni. Meðalþyngd humra (130 g) er mjög há í sögulegu samhengi og skýrist að mestu af þeim nýliðunarbresti sem verið hefur í humarstofninum undanfarin ár og af því leiðir þessi aukna hlutdeild eldri humars í afla.

Rammi með skýringunni

Úr humarvinnslu Skinneyjar-Þinganess.

Höggið er mikið

„Þessi mikli humarbrestur er gífurlegt áfall fyrir Hornafjörð. Ef við tökum vinnsluna hjá okkur, höfum við verið með allt upp í 80 unglinga í sumarafleysingum í humarvinnslunni. Nú erum við að ráða inn á milli tíu og tuttugu í afleysingar. Humarveiðin hefur verið verkefni fyrir skipin í sex til átta mánuði undanfarin ár. Nú dregst það verulega saman þannig að höggið er mikið, bæði fyrir vinnslu og útgerð og ekki síður það góða starfsfólk, sem unnið hefur við humarvinnsluna,“ segir Ásgeir Gunnarsson, framkvæmdastjóri veiða hjá Skinney-Þinganesi á Höfn.

Ásgeir Gunnarsson framkvæmdastjóri veiða hjá Skinney-Þinganesi á Höfn í Hornafirði, telur umræðuna um sjávarútveginn oft á tíðum óvægna og óvandaða.

Enginn kvóti verður gefinn út á þessu fiskveiðiári og eru fyrirtækin að vinna á heimildum, sem færðar hafa verið frá síðasta ári, samtals 310 tonn af heilum humri á þessu fiskveiðiári. Þegar því marki verður náð, verða veiðarnar stöðvaðar. Hlutur Skinnaeyjar-Þinganes af heildinni er ríflega 120 tonn. „Framhaldið er svo bara óljóst. Það verður bara að skýrast hvernig þetta sumar kemur út. Tvö helstu veiðisvæðin eru að öllu leyti friðuð fyrir veiðum nú, það eru Lónsdýpið og Jökuldýpið og hefur það óneitanlega áhrif á veiðarnar. Við höfum því áætlað 30% minni veiði á þessu ári og það hefur gengið eftir. Ekki síst vegna þessara lokana,“ segir Ásgeir.

Þinganes hefur engu að síður verið að veiðum fyrir austan á þeim svæðum sem leyfilegt er að vera á. Skinney og Þórir mun hefja veiðar þar líka. Venjulega hafa bátarnir svo flutt sig yfir á vestursvæðið eftir sjómannadag og verður það eins á þessu ári.

Íslendingar hafa nánast átt markaðinn fyrir heilan humar í Suður-Evrópu og segir Ásgeir að þessi mikli samdráttur, um hafi mjög slæm áhrif á markaðinn til lengri tíma. Fyrir vikið verði hvorki hægt að sinna þörfum þess markaðar né eftirspurn hér heimafyrir. Þetta megi ekki standa lengi yfir því þá geti markaðurinn hreinlega glatast.

 

 

 

Deila: