Humarvertíðin hafin en fátt um gleðitíðindi

108
Deila:

Nýlega hafin humarvertíð er tíðindalítil eins og gera mátti ráð fyrir þegar bágt ástand stofnsins er haft í huga. Fyrsta humri ársins hjá VSV var landað úr Brynjólfi VE föstudaginn 8. maí og Drangavík VE er sömuleiðis á humarveiðum. Bátarnir hafa verið í Skeiðarárdýpi fyrstu daga vertíðarinnar.

Humarstofninn er lélegur og líkt og fyrra gaf Hafrannsóknastofnun út lágmarkskvóta í vísindaskyni til að fylgjast með heilsufari stofnsins. Hvar veiðist humar og í hve miklum mæli? Ber eitthvað á smáhumri í afla sem jafngilti vonarglætu til framtíðar?

Í gögnum Hafrannsóknarstofnunar kemur fram að nýliðun skortir í humarstofninum. Það tengist hvorki veiðum né veiðarfærum heldur einhverjum aðstæðum í lífríki sjávarins. Ýmsar kenningar eru á lofti um ástæður en vísindalegar skýringar skortir.

Við óvissu um afrakstur sjálfra bætist svo óvissuástand á humarmörkuðum vegna kórónuveirufaraldursins, segir Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri bolfiskvinnslu VSV í samtali á heimasíðu félagsins.

„Þorlákshafnarmenn og Hornfirðingar byrja yfirleitt á undan okkur Eyjamönnum í humrinum, í mars eða apríl. Vertíðin hefst á austursvæðinu, frá Hornafjarðardýpi að Skeiðarárdýpi og færist svo vestar þegar líður á vorið og fram á sumar.

Undanfarin ár hefur mest veiðst við Eldey og humar er veiddur líka í Jökuldýpi en þar er nú lokað vegna verndaraðgerða. Lónsdýpi er sömuleiðis lokað og svæði á Breiðamerkurdýpi. Hér við Eyjar hefur sama og ekkert veiðst af humri í mörg ár.

Nýliðun skortir í humarstofninum, hverju svo sem um er að kenna í umhverfinu. Eingöngu hefur veiðst stór humar undanfarin ár en nú kemur fyrir að smár humar fáist líka. Það gefur veika von um skárri tíð en við þurfum fleiri og skýrari vísbendingar og mun meiri gögn til að byggja á og draga af ályktanir.

Vinnslustöðin selur heilfrystan humar til Spánar og humarhala á markaði víða á meginlandi Evrópu. Nú eru veitingahús lokuð vegna kórónuveirunnar á mestöllu meginlandinu og engin spurn eftir humri. Við veiðum því og framleiðum eftir hendinni og reynum að spila úr þeim markaðsfærum sem gefast þegar faraldrinum linnir og lífið færist í fyrra horf, þar á meðal í veitingahúsarekstri.“

 

Deila: