Hunangssætur lax

Deila:

Lax eða ekki lax? Nú hefur komið í ljós að á dönskum veitingastað þykir mönnum betra að bjóða upp á íslenskan en norskan lax. En að okkar mati skiptir það ekki máli, aðeins að laxinn sé ferskur og góður. Eldislax er veislumatur og ekki of dýr til að gæða sér á honum endrum og eins. Þess vegna er það lax. Gerið svo vel, lax með austurlensku ívafi, en engu að síður af íslenskum uppruna.

Innihald:

2 msk smjör eða ólífuolía

4 til 6 sneiðar úr laxaflaki 180g hvert eða um það bil, með eða án roðs

safi úr hálfri appelsínu eða fjórðungur úr bolla af ferskum safa.

3 msk hunang

2 msk sojasósa

4 geirar af hvítlauk, maukaðir

salt og svartur pipar úr kvörn

hálf appelsína í sneiðum

Aðferð:

Hitið smjörið, eða olíuna, á góðri pönnu upp að miðlungshita. Steikið laxabitana í 3-4 mínútur á holdhliðinni og síðan 2-4 mínútur með roðið niður.

Hellið appelsínusafanum yfir laxinn á pönnunni og látið sjóða niður um helming. Bætið hvítlauknum út á og látið hann mýkjast.

Færið laxinn til hliðar á pönnunni og setjið hunangið og sojasósuna út á hana og hrærið vel saman.  Látið krauma í hálfa mínútu eða svo, svo sósan verði jöfn og hæfilega þykk og látið blandast vel við laxinn.

Kryddið með salti og pipar eftir smekk, skreytið með graslauk og berið fram með góðum hrísgrjónum og fersku eða steiktu grænmeti að eigin vali. Og kannski glasi af kældu góðu hvítvíni.

 

Deila: