-->

Húsvískir heiðursmenn

Sjómennirnir, Eiður Gunnlaugsson og Heimir Bessason voru heiðraðir í dag fyrir farsæla sjómennsku en þeir hafa stundað sjómennsku í áratugi frá Húsavík. Athöfnin fór fram á Fosshótel Húsavík þar sem Sjómannadagskaffi Slysavarnardeildar kvenna fór fram. Fjölmenni var í kaffinu. Sjómannadeild Framsýnar sá um heiðrunina. Það var Aðalsteinn Á. Baldursson formaður framsýnar sem ávarpaði þessa heiðursmenn:
„Ég vil í upphafi óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn.

Hefð er fyrir því hér á Húsavík að halda Sjómannadaginn hátíðlegan og heiðra húsvíska sjómenn fyrir vel unnin störf. Sjómannadeild Framsýnar hefur séð um heiðrunina undanfarin ár.
Sjómennirnir tveir sem við ætlum að heiðra í dag eiga það sameiginlegt að hafa lengi stundað sjómennsku. Þá hafa þeir einnig verið liðtækir við uppstokkun og beitningu neðan við bakkann.
Þeir eiga það einnig sameiginlegt að hafa gaman að því að spila bridge. Þeir hittast reglulega ásamt öðrum síungum sjómönnum sem sestir eru í helgan stein og spila bridge  í eldhúsinu hjá Eida Gils á Garðarsbrautinni,“ sagði Aðasteinn Á. Baldursson.
Frekari upplýsingar um heiðursmennina má finna á heimasíðu Framsýnar, http://www.framsyn.is