Hvalur strandaði

125
Deila:

Hvalur strandaði á grynningum neðan við bæinn Lindarbrekku í Berufirði í gærmorgun. Hann losnaði af sjálfsdáðum og synti út nokkrum tímum síðar. Frá þessu er greint á vefsíðunni https://www.austurfrett.is/

„Við tókum eftir honum rétt fyrir klukkan níu. Hann hefur synt hérna upp á leiruna,“ segir Guðmundur Valur Gunnarsson, bóndi á Lindarbrekku.
Hvalurinn braust um í flæðarmálinu og tókst að losa sig upp úr klukkan hálf ellefu. „Hann var upp úr endilagt og braust mikið um. Þegar leið á var hann orðinn dálítið dasaður. Það var síðan mikill bægslagangur þegar við sáum á eftir honum,“ segir Guðmundur Valur.
„Það flæddi út á þessum slóðum um klukkan sjö. Það er líklegt að hann hafi verið á ferðinni þá, mögulega á eftir æti. Síðan hafi flætt hratt út og hann fest sig við botninn,“ segir Edda Elísabet Magnúsdóttir, hvalasérfræðingur hjá Háskóla Íslands.
Hún segir það mikinn létti að hvalurinn hafi losað sig af sjálfsdáðum. Annars hefði mögulega þurft að smala honum út á háflóði eftir hádegi, sem getur verið vandasamt verk.
Edda Elísabet segir ljóst að um hval af reyðarætt hafi verið að ræða en beðið er eftir betri myndum til að geta staðfest hvort hann var hnúfubakur eða langreyður.

Mynd: Valur Þeyr Arnarson

Deila: