-->

Hvalveiðar verði takmarkaðar við 383 dýr

Hafrannsóknastofnun leggur til að ekki verði veiddir fleiri hvalir við Ísland en ríflega 380 á næsta ári. Það er sami fjöldi og leyfilegt er að veiða á þessu ári. Veiðar undanfarin ár hafa verið mjög litlar. Engin langreyður var veidd síðustu tvö ár og aðeins 108 hrefnur . Veiðar eru nú hafnar á hrefnu og farið verður til veiða á langreyði á næstunni.

Eftir tveggja áratuga hlé á hvalveiðum í atvinnuskyni hófust veiðar að nýju árið 2006, með veiðum á hrefnu og langreyði. Alls voru 52 hrefnur veiddar á árinu 2012, sex færri en árið 2011. Veiðar á langreyði voru ekki stundaðar árin 2011 og 2012, en árið 2010 voru veidd 148 dýr. Samkvæmt úttektum vísindanefnda Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) og Norður-Atlantshafs Sjávarspendýraráðsins (NAMMCO) er ástand hrefnustofnsins við Ísland (Miðnorður-Atlantshafsstofn) gott og stofnstærðin metin nálægt því sem talið er að hún hafi verið áður en veiðar hófust. Á grundvelli nýrra úttekta á vegum IWC og NAMMCO mælir Hafrannsóknastofnun með að árlegar veiðar nemi að hámarki 229 hrefnum á íslenska landgrunnssvæðinu og auk þess 121 hrefnu á svokölluðu Jan Mayen
undirsvæði, sem að hluta til er innan íslenskrar lögsögu. Ráðgjöf þessi gildir fyrir almanaksárin 2014 og 2015.
Niðurstöður talninga á langreyði frá 2007 benda til að heildarstofninn á hafsvæðinu Austur-Grænland/Ísland/Jan Mayen sé um 21 þús. dýr, sem er svipað og niðurstöður úr talningum frá 1995 og 2001. Á grundvelli úttekta á vegum IWC og NAMMCO mælir Hafrannsóknastofnun með að árlegar veiðar á hefðbundnum hvalveiðimiðum vestan Íslands nemi að hámarki 154 langreyðum almanaksárin 2014 og 2015. Ráðgjöfin byggir á sjónarmiðum um sjálfbærni og varúðarnálgun.
Meðfylgjandi mynd er tekin á hrefnuveiðum á Faxaflóa.
Ljósmynd Hjörtur Gíslason