-->

Icelandic Group kaupir Ný‐Fisk í Sandgerði

Von GK-113

Von GK-113

Icelandic Group hefur lokið við kaup á fiskvinnslufyrirtækinu Ný‐Fiskur í Sandgerði. Ný‐Fiskur sérhæfir sig í frumvinnslu og sölu á ferskum sjávarafurðum, sér í lagi þorski og ýsu. Samhliða mun Icelandic Group yfirtaka Útgerðarfélag Sandgerðis sem rekur línubátinn Von GK‐113 með kvóta upp á um 800 tonn. Ný‐Fiskur notar í sína framleiðslu yfir 7.000 tonn af hráefni árlega. Um 70% af framleiðslu er seld sem ferskar afurðir með flugi þar sem fiskurinn er komin á disk neytenda innan við 48 tímum eftir að fiskurinn kemur upp úr sjó. Í kjölfar kaupanna verður nafni Ný‐Fisks breytt í Icelandic Ný‐Fiskur.

Í fréttatilkynningu um kaupin segir Magnús Bjarnason, forstjóri Icelandic Group svo: „Kaup okkar á Ný‐Fiski og Útgerðarfélagi Sandgerðis er mikilvægt skref fyrir okkur hjá Icelandic Group og mun styrkja aðgengi félagsins enn frekar að sjávarauðlindum, sem er einn af lykilþáttum í stefnu og framtíðarsýn félagsins. Með þessum kaupum erum við jafnframt að bregðast við auknum kröfum neytenda okkar um allan heim varðandi skýran uppruna og rekjanleika fiskafurða. Ný‐Fiskur hefur yfir 20 ára sögu félagsins verið leiðandi í framleiðslu á hágæða ferskum fiskafurðum til kröfuharðra viðskiptavina víða um Evrópu. Fyrirtækið hefur á að skipa sterku stjórnendateymi sem mun hér eftir sem hingað til halda áfram góðu starfi og vinna með okkur í að sækja fram og vinna úr öllum þeim fjölmörgu tækifærum sem við sjáum framundan.“
„Nú, þegar Nýfiskur er orðinn hluti af sama félaginu eykur það möguleika okkar á að stunda skilvirka vöruþróun og ná meiri árangri úti á mörkuðunum. Aðgangurinn að auðlindinni er mjög mikilvægur og með þessu erum við í raun að einfalda virðiskeðjuna. Það sem við erum að heyra frá viðskiptavinum okkar á öllum mörkuðum er að þeir vilja hafa virðiskeðjuna eins einfalda og mögulegt er og við erum að ná því með því að dýpka samstarf okkar við framleiðendur á Íslandi og vera í nánara sambandi við þá. Áfram er mjög náið samstarf við framleiðendur á Íslandi lykilatriði starfsemi okkar. Við viljum hafa virðiskeðjuna styttri og hlekkina traustari,“ segir Magnús ennfremur í samtali við kvotinn.is
Ný‐Fiskur var stofnað árið 1989 af Birgi Kristinssyni framkvæmdastjóra félagsins. Allt frá stofnun hefur höfuðáhersla verið lögð á að selja hágæða ferskan línuveiddan fisk til viðskiptavina víðsvegar um Evrópu. Auk þess er Ný‐Fiskur mikilvægur birgir Icelandic Gadus, dótturfélags Icelandic Group í Belgíu.
Ný‐Fiskur rekur fullkomna verksmiðju sem fengið hefur BRC vottun ásamt því að reka HACCP gæðakerfi og er ein af fáum fiskvinnslum á Íslandi sem hefur fengið slíkar vottanir. Hjá fyrirtækinu starfa um 100 manns að jafnaði.
Birgir Kristinsson, framkvæmdastjóri Icelandic Ný‐Fisks er ánægður með kaupin: „Við hjá Icelandic Ný‐Fiski erum afar ánægð og spennt með það að vera að ganga til liðs við Icelandic Group á þessum tímapunkti. Það eru spennandi tímar framundan í íslenskum sjávarútvegi og erum við sammála þeirri stefnu og framtíðarsýn sem Icelandic Group hefur markað sér. Ég tel að núna sé rétti tíminn fyrir Ný‐Fisk að taka saman höndum með Icelandic Group. Saman getum við náð fram auknum samlegðaráhrifum og markmiðum okkar hraðar. Icelandic Group mun styðja enn frekar við vöxt félagsins og markmiðum þess að framleiða gæða ferskfiskafurðir á sem skilvirkastan máta.“