Iðandi af ungu fólki

79
Deila:

Síðustu vikur hefur húsnæði Brims verið iðandi af ungu fólki en Sjávarútvegsskóli unga fólksins í Reykjavík, hefur haft aðstöðu hjá okkur í Norðurgarði. Alls munu 75 nemendur sækja skólann í Reykjavík í ár segir í  frétt frá Brimi.

Nemendur skólans fá í eina viku að kynnast flestum þáttum sjávarútvegs og menntunar- og atvinnumöguleikum tengdum sjávarútvegi.  Gestafyrirlesarar hér í Reykjavík hafa verið, Agnes Guðmundsdóttir frá Útgerðarfélagi Reykjavíkur, Berta Daníelsdóttir framkvæmdastjóri Sjávarklasans og Heiða Kristín Helgadóttir framkvæmdastjóri Niceland Seafood.

Markmið skólans er að kynna sjávarútveg og tengdar greinar fyrir grunnskólanemum, það er hvaða atvinnumöguleikar standa þeim til boða í atvinnugreininni og menntunarmöguleikar auk þess að:

  • Fræða börn og unglinga um störf, fjölbreytni þeirra og verðmætasköpunina sem á sér stað í atvinnulífinu til að mynda í sjávarútvegi og tengdum greinum.
  • Auka þekkingu ungs fólks um sjávarútveg.
  • Sýna fram á að í sjávarútveginum er eftirsóknarvert starfsumhverfi og þar eru tækifæri til spennandi framtíðar.
  • Veita jákvæða upplifun og laða þannig að áhugasama og gefandi einstaklinga í framtíðinni í sjávarútveginn.
  • Koma með innlegg í jákvæða umræðu og umfjöllun um sjávarútvegsfyrirtæki við þjóðina.

Þetta er í fyrsta sinn sem Sjávarútvegsskóli unga fólksins er starfræktur í Reykjavík en skólinn er samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri, fyrirtækja í sjávarútvegi og vinnuskóla í þeim sveitarfélögum þar sem skólinn er starfræktur.

Sjávarútvegsskóli unga fólksins var stofnaður árið 2013 af Síldarvinnslunni í Neskaupsstað en Sjávarútvegssmiðstöð Háskólans á Akureyri tók við rekstrinum árið 2017 og síðan þá hefur skólinn verið rekinn í samstarfi við vinnuskóla byggðarlaga og sjávarútvegsfyrirtækja á Austurlandi og á Norðurlandi. Reiknað er með að nemendur skólans árið 2020 verði um 300 ungmenni.

 

 

Deila: