Ingvar og Ágúst nýir sölustjórar hjá Skaganum 3X

207
Deila:

Hátæknifyrirtækið Skaginn 3X hefur ráðið til sín 2 nýja sölustjóra í söluteymi fyrirtækisins.
Ágúst Ágústsson og Ingvar Vilhjálmsson munu báðir gegna stöðu svæðissölustjóra fyrir Evrópumarkað. Báðir hafa þeir lengi starfað við sjávarútveginn og hjá fyrirtækjum sem sérhæfa sig í þróun og framleiðslu á hátæknibúnaði fyrir matvinnslu.

Ágúst er búsettur í Svíþjóð og vann um árabil hjá Marel, einum stærsta framleiðanda matvinnslutækja í heiminum, og hefur hann gríðarlega þekkingu á alifuglaiðnaðnum á Evrópumarkaði.
Ingvar er búsettur á Íslandi og starfaði áður sem framkvæmdastjóri Ægis Sjávarfangs þar sem hann sá um almennan rekstur félagsins sem og sölu afurða til viðskiptavina á erlendum mörkuðum. Ingvar hefur einnig mikla þekkingu á fjármálageiranum þar sem hann gegndi áður stöðu framkvæmdastjóra markaðsviðskipta hjá Kaupþingi.
„Eitt af því sem gefur Skaganum 3X sérstöðu er hversu náið við vinnum með iðnaðinum og eru Ingvar og Ágúst frábær viðbót við teymið okkar.“ segir Ingólfur Örn Guðmundsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Skaganum 3X. „Víðtæk þekking þeirra og reynsla í geiranum mun vera mikill ávinningur fyrir Skaginn 3X, ekki síst til að tryggja áframhaldandi gott samstarf við núverandi sem og nýja viðskiptavini.“
Um Skaginn 3X
„Skaginn 3X á traustar rætur í íslenskum sjávarútvegi og hefur haslað sér völl á alþjóðlegum markaði.
Fyrirtækið býr að áratuga reynslu í framleiðslu hátæknilausna fyrir matvælaiðnað. Markmið þess er að vera leiðandi í hönnun og þróun á kæli- og frystibúnaði fyrir matvælaframleiðslu.
Meginstarfsstöðvar fyrirtækisins eru á Akranesi, Ísafirði og Reykjavík. Öll aðstaða og tæknibúnaður stenst ýtrustu kröfur um tækni og býður upp á ströngustu prófanir á öllum kerfum og búnaði. Margt af okkar ágæta starfsfólki hefur verkfræði- og hugbúnaðarmenntun auk áratuga reynslu í þeim greinum sem og af fiskveiðum og sjávarútvegi. Skaginn 3X er hátæknifyrirtæki og meginstyrkur þess liggur í stöðugri frumkvöðla- og nýsköpunarhugsun. Áhersla er lögð á að bjóða lausnir í hæsta gæðaflokki og ryðja braut nýrrar tækni sem færir viðskiptavinum okkar og umhverfinu verulegan ávinning,“ segir í frétt frá Skaginn 3X

Deila: