ÍSAGA fagnar aldarafmæli

Deila:

ÍSAGA fagnaði 100 ára afmæli sínu  síðastliðinn föstudag bauð af því tilefni viðskiptavinum og almenningi í heimsókn í höfuðstöðvar fyrirtækisins að Breiðhöfða 11 á Ártúnshöfða. Þar gafst bæði tækifæri til að bregða á leik, njóta veitinga og kynnast fjölbreyttri starfsemi ÍSAGA en gas- og lofttegundir sem félagið framleiðir eða selur koma við sögu í okkar daglega lífi víðar en margan grunar!

Fiskeldi er ört vaxandi atvinnugrein og ÍSAGA framleiðir súrefni til notkunar í eldiskerum,
bæði á sjó og landi, ásamt því að útvega SOLVOX súrefnisdreifibúnað

ÍSAGA er gamalt og rótgróið fyrirtæki sem var stofnað í samstarfi við sænska fyrirtækið AGA til að framleiða asetýlengas í tengslum við vitavæðingu Íslands. Þeim kafla í sögu fyrirtækisins lauk árið 2005, þegar hætt var að nota gas til að lýsa upp vita landsins. ÍSAGA hefur einnig sinnt þörfum íslensks atvinnulífs allt frá stofnun félagsins. Þjónustunni er nú skipt í sex meginsvið. Þau eru iðnaðarframleiðsla, matvælaframleiðsla, lyfjaframleiðsla, málmiðnaður, efnaiðnaður og sérhæfðar lofttegundir.

Hluti af alþjóðlegri liðsheild

ÍSAGA tilheyrir AGA samsteypunni sem er að fullu í eigu Linde, sem er stærsta gasframleiðslufyrirtæki heims með starfsemi í yfir 100 löndum og leiðandi á sínu sviði. Stafsmenn eru um 80.000 talsins, þar af um 30 á Íslandi.

„Við erum svo sannarlega ekki ein á báti hér á Íslandi og horfum björtum augum til framtíðar með reksturinn. Það er mikill styrkur að hafa aðgang að allri þeirri þekkingu og tækninýjungum sem eru til staðar hjá móðurfélaginu, viðskiptavinum okkar til hagsbóta,“ segir Erik Larsson, sem tók við starfi framkvæmdastjóra ÍSAGA um síðustu áramót.

Nafnabreyting og nýjar höfuðstöðvar

Til að undirstrika þessi tengsl enn frekar verður nafni ÍSAGA breytt í Linde í byrjun næsta árs. Jafnframt verður ráðist í uppbyggingu nýrra höfuðstöðva á næstu árum en félagið þarf að flytja af Ártúnshöfða vegna breyttrar landnotkunar þar. Þá hefur ný súrefnis- og köfnunarefnisverksmiðja sem tekin var í notkun á síðasta ári í Vogum á Vatnsleysuströnd reynst vel. Hægt er að tvöfalda afkastagetu hennar þegar þess gerist þörf, sem verður væntanlega innan nokkurra ára.

 

Deila: