ISI tapaði 300 milljónum

Deila:

Iceland Seafood International (ISI) tapaði 2,1 milljón evra á öðrum ársfjórðungi eða sem nemur 296 milljónum á gengi dagsins, að því er kemur fram í árshlutauppgjöri félagsins. Til samanburðar tapaði félagið hundrað milljónum króna á fyrsta fjórðungi. Frá þessu er greint á vb.is

Tekjur ISI á öðrum fjórðungi jukust um 16,3% á milli ára og námu 135,8 milljónum evra eða um 19 milljörðum króna. Þá nam framlegð félagsins 122,5 milljónum evra eða um 17,2 milljörðum króna.

„Fyrri helmingur ársins var vonbrigði fyrir Iceland Seafood,“ segir Bjarni Ármannsson, forstjóri og stærsti hluthafi félagsins.

„Í Covid-faraldrinum lögðum við áherslu á að ná betra jafnvægi með auknu vægi í smásölu. Á tímum gífurlegrar hækkana á aðfangaverði er þó erfitt að velta kostnaðarhækkunum áfram til smásöluviðskiptavina okkar. Það er eins og að eltast við skottið á sér. Þetta hefur haft í för með sér hærri kostnaðargrunn sem leiðir þar með til neikvæðrar niðurstöðu.“

Bjarni segir að eftirspurn hafi dregist saman vegna verðhækkananna. Iceland Seafood sé þó bjartsýnna fyrir seinni helmingi ársins, m.a. þar sem hrávöruverð er á niðurleið. „Við höfum mikla trú á að við séum með sterka stöðu á okkar mörkuðum og að við getum nýtt okkur hana á næstu mánuðum. Fjórði ársfjórðungur er lykiltímabil fyrir Iceland Seafood. Rekstrarumhverfið er þegar að batna og við teljum að það muni batna frekar.“

Í tilkynningu ISI segir að verð á bolfiski hafi hækkað verulega og nefnir félagið sérstaklega fjórðungshækkun á þorski í ár. Þá hækkaði verð á laxi verulega á fyrstu mánuðum ársins og í maí hafði verðið hækkað um 90% frá áramótum en hefur lækkað nokkuð aftur síðustu vikurnar.

Iceland Seafood segir að verðhækkanir á laxi í byrjun árs séu komnar út í verðlagið. Því megi búast við að lækkandi verð á laxi muni hafa í för með sér að starfsemin í Írlandi og dótturfélagið Ahumados Domíngues verði því aftur komin í eðlilegt horf frá og með þriðja ársfjórðungi sem muni styðja við bætta rekstrarniðurstöðu á seinni helmingi þessa árs.

Iceland Seafood hefur lýst því að miklar verðhækkanir hafi áhrif á afkomu af starfsemi félagsins í Norður-Evrópu, sem reiðir sig mikið á smásölugeirann, þar sem lengri tíma tekur að velta verðhækkunum til viðskiptavina innan smásölugeirans heldur en til viðskiptavina í veitingageiranum.

Fram kemur að starfsemi ISI í Bretlandi hafi verið rekin með tapi á fyrri helmingi ársins og gert er ráð fyrir að áfram verði tap af henni á seinni helmingi ársins. Vonast er til að hún afkoma breska arms félagsins verði í kringum núllið á fyrstu sex mánuðum næsta árs.

 

Deila: