Ísland er síld og síld er Ísland

Deila:

Anton Vasiliev sendiherra Rússlands kom í heimsókn til Neskaupstaðar í gærog í för með honum var Tatiana Khalyapina menningarfulltrúi í sendiráðinu. Kynntu þau sér starfsemi og sögu Síldarvinnslunnar, skoðuðu bæinn og undirbjuggu kvikmyndasýningu sem verður í Neskaupstað á Rússnesku kvikmyndavikunni í september nk.

Sendiherrann sagðist í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar vera afar ánægður með heimsóknina og færi margfróðari til baka. „Samskiptin á milli Íslands og Rússlands hafa ávallt verið góð og hagsmunir landanna eru gagnkvæmir á mörgum sviðum. Ég er alinn upp við að borða íslenska síld og ávallt þegar síld barst í tal kom Ísland upp í hugann. Í Rússlandi var gjarnan sagt: „Ísland er síld og síld er Ísland.“ Nú stendur til að sýna rússneska kvikmynd í Egilsbúð í Neskaupstað hinn 22. september og það er hluti af hinni árlegu Rússnesku kvikmyndaviku. Þá ætla ég að koma til Neskaupstaðar á ný og njóta heimsóknarinnar í fallegu umhverfi og með góðu fólki,“ sagði Anton Vasiliev sendiherra.

Anton Vasiliev hefur verið sendiherra Rússlands  á Íslandi frá árinu 2014.

 

Deila: