Ísleifur VE dró Kap VE til Akureyrar

170
Deila:

Aðalvélin í Kap VE bilaði þegar skipið var á loðnumiðum fyrir norðaustan landið á mánudag. Annað skip frá Vinnslustöðinni, Ísleifur VE, var þar ekki langt frá og tók Kap í tog áleiðis til Akureyrar. Veður var skaplegt, allt gekk vel fyrir sig og engin hætta á ferðum.

Skipin voru á Grímseyjarsundi í gær morgun og í mynni Eyjafjarðar um hádegisbil. Þá kom lóðsbátur á móti þeim og dró Kap til Akureyrar en Ísleifur snéri á ný til loðnuveiða, sagði Jón Atli Gunnarsson, skipstjóri á Kap, í samtali á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar.

„Við vorum að toga og ætluðum að fara að hífa þegar boð bárust frá vélstjórum um að vélarbilun. Okkur tókst að ná hlerum um borð með afli aðalvélarinnar en notuðum svo ljósavélar til að dæla aflanum um borð, um 200 tonnum af loðnu, og ná síðan veiðarfærunum.

Ég hafði strax samband við Ísleif og áhöfn hans var þá nýbúin að hífa. Vel gekk að koma taug á milli skipanna og engin dramatík var í kringum þetta.

Við vitum ekki hvers eðlis bilunin er en vonandi tekur viðgerð ekki langan tíma. Það vitum við samt ekki fyrr en málið verður kannað betur á Akureyri.“

Deila: