Íþyngjandi gjaldtaka hægir á verðmætasköpun í fiskeldi

Deila:

„Gjaldtaka í sjókvíaeldi er umfangsmeiri en í flestum öðrum atvinnugreinum hér á landi. Flest fyrirtæki greiða hefðbundin gjöld á borð við tekjuskatt, eftirlits-, fasteigna-, kolefnis- og tryggingagjald. Fyrirtæki sem starfrækja fiskeldi í sjó þurfa hins vegar einnig að greiða sérstök fiskeldisgjöld. Má þar nefna auðlinda- og aflagjald, ásamt gjaldi í umhverfissjóð sjókvíaeldis.“

Farið er yfir þessa stöðu í pistli frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi;

Það er jákvætt að fyrirtæki greiði í sameiginlega sjóði. Eins og í öðrum athöfnum mannsins verður hins vegar að gæta hófs. Fyrir liggur að gjaldtaka af fiskeldi í sjó mun margfaldast strax á þessu ári og síðan áfram á þeim næstu. Af þeim sökum er mikilvægt að staldra við og gaumgæfa stöðuna og þá vegferð sem framundan er. Gjaldtaka úr hófi mun hafa íþyngjandi áhrif á rekstur, fjárfestingu og samkeppnishæfni fyrirtækja. Af því leiðir að hinn þjóðfélagslegi ávinningur verður minni. Allir tapa.

Hér er rétt að undirstrika að lang stærsti hluti afurða er fluttur á erlendan markað þar sem íslenskur eldislax á í harðri samkeppni. Samfélagið nýtur góðs af því þegar vel gengur að selja á erlendum mörkuðum, meðal annars vegna jákvæðra áhrifa á viðskiptajöfnuð, framlags til hagvaxtar, aukinnar byggðafestu og meiri umsvifa í mörgum byggðalögum. Það eru því sameiginlegir hagsmunir allra að vel gangi í þessari nýju atvinnugrein.

Róðurinn þyngist þegar fullt auðlindagjald nálgast
Árið 2019 voru sett lög um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð. Gjaldið, sem hér eftir verður kallað auðlindagjald, byggist á alþjóðlegu markaðsverði FishPool á atlantshafslaxi frá ágúst til október fyrra árs. Upphæðin er fast hlutfall af hverju slátruðu kílói. Hlutfallið er 3,5% þegar markaðsverð er 4,8 evrur/kg eða meira og 2% þegar verð er lægra en 4,8 evrur/kg en þó hærra en 4,3 evrur/kg. Hlutfallið er síðan 0,5% á hvert kíló þegar markaðsverðið er lægra en 4,3 evrur/kg. Þar sem fiskeldi er tiltölulega ný en vaxandi atvinnugrein hér á landi var ákveðið að innleiða auðlindagjald í 7 þrepum. Fyrsta árið eftir gildistöku laganna var 1/7 hlutur af fullu gjaldi greiddur, á öðru ári 2/7 hlutar og svo koll af kolli. Fullt gjald verður því komið á árið 2026.

Alþjóðlegt meðalverð á atlantshafslaxi var 4,31 evra á hvert kíló í ágúst-október árið 2020 og féll því auðlindagjaldið undir miðjustofninn, eða 2% á hvert slátrað kíló. Þetta var annað árið frá gildistöku laganna og því 2/7 hlutar af fullu gjaldi greiddur það ár. Virkur skattur þetta ár var því 0,57% og greiddu fyrirtæki um 4 krónur á hvert slátrað kíló af laxi. Á þessu ári er komið að því að greiða 3/7 hluta fulls gjalds. Meðalverðið á laxi árið 2021 hafði hækkað frá fyrra ári og byggðist því auðlindagjaldið á hæsta stofni. Auðlindagjald fyrir laxeldi í sjó á þessu ári er því 11,92 krónur á hvert slátrað kíló, eða tæplega þrefalt hærra en í fyrra. Fjárhæð gjalds á hvert kíló slátraðs regnbogasilungs og hvers kílós af slátruðum ófrjóum laxi og laxi sem alinn er í sjó með lokuðum eldisbúnaði nemur helmingi almenna gjaldsins.

Árið 2026 er fyrsta árið þar sem fyrirtæki munu greiða gjaldið að fullu. Meðalverð á laxi hefur farið ört hækkandi síðustu mánuði og er nú 7,34 evrur/kg. Ef gert er ráð fyrir að næstu árin haldist verðið yfir 4,8 evrum og gjaldtakan taki þar af leiðandi mið af hæsta skattþrepi, má áætla að auðlindagjald verði yfir 30 krónum á hvert slátrað kíló af frjóum laxi. Á myndinni hér að neðan sést þróun auðlindagjalds í fiskeldi. Gjaldið fyrir árin 2021 og 2022 liggur nú þegar fyrir. Gjald fyrir árið 2023 tekur mið af áætluðu meðalverði (FPI forward price) á atlantshafslaxi fyrir ágúst-október 2022 og útreikningar þess árs því nokkuð áreiðanlegir. Ekki hafa verið gefin út áætluð meðalverð á hvern mánuð fyrir árin 2023-2026 og sýnir myndin því auðlindagjald sem tekur mið af áætluðu meðalverði yfir árin áður í heild. Útreikningar fyrir árin 2024-2026 eru því grófari.

Flókið fyrirkomulag umhverfissjóðs
Gjald til umhverfissjóðs sjókvíaeldis vegur einnig þungt í rekstrarreikningi eldisfyrirtækja með fisk í sjókvíum. Fyrirkomulagið er þó nokkuð ólíkt fyrrnefndu auðlindagjaldi, því gjald í umhverfissjóð sjókvíaeldis tekur mið af framleiðsluheimild hvers fyrirtækis en ekki raunverulegri framleiðslu. Ekki er óalgengt að heimildir til framleiðslu séu talsvert umfram raunverulega framleiðslu. Því er í raun verið að taka gjald af því sem framleiða en ekki því sem verið er að framleiða. Fyrirkomulag gjaldtöku umhverfissjóðs er því til þess fallið að hægja á vextinum – og þar með nauðsynlegri verðmætasköpun.

Árgjöld eru greidd í umhverfissjóð 1. október hvers árs og eru þau reiknuð út frá SDR gengi, sem er gengiskarfa gjaldmiðla sem helst eru notaðir í milliríkjaviðskiptum. SDR gengi var 179,37 krónur í byrjun október árið 2021. Árgjaldið er 20 SDR (3.587 krónur árið 2021) fyrir hvert tonn sem heimilt er að framleiða af frjóum laxi í kvíum, 10 SDR (1.794 krónur árið 2021) fyrir ófrjóan lax eða regnbogasilung og 5 SDR (897 krónur árið 2021) fyrir eldisfisk í lokuðum eldisbúnaði. Ef tekið er gróft dæmi af laxeldisfyrirtæki á Íslandi með framleiðsluheimild fyrir 25.200 tonn af frjóum laxi í sjókvíum árið 2021 en framleiddi aðeins 11.500 tonn sama ár, þá greiddi fyrirtækið rúmlega 90 milljónir króna í sjóðinn. Það samsvarar tæplega 8 krónum á hvert framleitt kíló. Ef umhverfisgjald væri hins vegar greitt fyrir hvert framleitt kíló yrðu sjóðsgreiðslurnar rúmlega 41 milljón eða 3,6 krónur á hvert framleitt kíló.

Dulin skattheimta aflagjalds
Við fyrrgreinda sértæka skattheimtu af sjókvíaeldi bætist síðan aflagjald. Aflagjald í fiskeldi er mismunandi eftir höfnum, en oftast á almennt aflagjald við um fiskeldi og þá er gjaldið um 1,6% af heildarverðmæti þess sem er landað. Aflagjald af eldisfiski reiknast af helmingi heildarverðmætis.

Ljóst er að fiskeldisfyrirtæki nýta hafnir á margþætta vegu og að mismunandi stærðir og gerðir af bátum eiga aðkomu að höfnum, s.s. brunnbátar, flutningaskip, þjónustubátar, tankskip, köfunarþjónusta o.s.frv. Sú þjónusta sem fiskeldisfyrirtæki þiggja af höfnum vegna framangreindrar starfsemi er ólík og misjöfn að umfangi. Engin skoðun hefur hins vegar farið fram af hálfu stjórnvalda á því hver er raunverulegur kostnaður hafna af þessari þjónustu og hvernig hann er sundurliðaður milli hafna og eftir þjónustuþáttum. Tilraunir eldisfyrirtækja til að afla slíkra upplýsingar frá sveitarfélögum og höfnum hafa reynst árangurslausar þrátt fyrir ótvíræða lagaskyldu, sbr. 2. mgr. 20. gr. hafnalaga. Slíkar upplýsingar hljóta að vera nauðsynleg forsenda þess að unnt sé að haga gjaldtöku þannig að hún verði bæði sanngjörn og eðlileg fyrir fiskeldisfyrirtæki jafnt sem hafnir og tryggja að gjöld standi alfarið undir þeim kostnaði sem hafnir hafa af starfsemi fiskeldis.

Rekstarumhverfið verður að vera samkeppnishæft
Ljóst er að gjaldtaka í fiskeldi er umfangsmikil. Mikilvægt er að ríkið hljóti greiðslur af atvinnugreininni og að gæða- og umhverfiseftirlit sé gott. Hins vegar verður að haga rekstrarumhverfi hér á landi með þeim hætti að það standi ekki samkeppnishæfni fyrir þrifum. Margt bendir til þess að gjaldtaka í greininni sé umfram það sem tíðkast í samanburðarlöndum. Þar vegur auðlindagjaldið sannanlega þyngst, en við bætast síðan aflagjald og gjald í umhverfissjóð sjókvíaeldis. Ef litið er til þess sem að ofan greinir, þá geta þessi gjöld hæglega numið yfir 45 kr. á hvert framleitt kg. Það er verulega íþyngjandi í alþjóðlegri samkeppni. Til samanburðar hafa framleiðslutengd gjöld í Noregi verið um 5 kr. á hvert kg. Ef stjórnvöld ætla sér að byggja upp sjókvíaeldi með metnaðarfullum hætti þarf að gæta hófs í þessum efnum. Fiskeldi á Íslandi er vaxandi atvinnugrein sem skapað hefur gríðarleg tækifæri til verðmætasköpunar. Störfum hefur fjölgað ört í kjölfar aukinna umsvifa og útflutningsverðmæti eldisafurða aldrei verið meira. Það er sameiginlegt verkefni að treysta þessa nýju stoð hagsældar enn frekar.

Deila: