Jafnlaunavottun Síldarvinnslunnar endurnýjuð

Deila:

Í desembermánuði gerði vottunarfyrirtækið BSI á Íslandi úttekt á jafnlaunakerfi Síldarvinnslunnar, en samkvæmt lögum eiga öll fyrirtæki og stofnanir með fleiri en 25 starfsmenn að uppfylla kröfur staðalsins ÍST 85:2012 um jafnlaunakerfi. Jafnlaunakerfið skal innihalda kerfisbundnar aðferðir sem eiga að koma í veg fyrir að kynbundinn munur sé á launum starfsmanna.

Til grundvallar úttektinni lágu fyrri úttektir á kerfinu, auk jafnlaunagreiningar sem framkvæmd var af sérfræðingum hjá fyrirtækinu Intenta ehf. Í úttektinni var farið yfir virkni kerfisins og tekið úrtak úr launagögnum til skoðunar. Þetta er í fjórða sinn sem slík úttekt er gerð á jafnlaunakerfi Síldarvinnslunnar hf. og er enn og aftur staðfest að jafnlaunakerfið uppfylli kröfur staðalsins. Jafnlaunagreiningin sýndi að engan órökstuddan launamun er að finna hjá fyrirtækinu og því staðfest að fyrirtækið greiðir sambærileg laun fyrir sambærileg störf. Niðurstaðan kemur Hákoni Ernusyni, starfsmannastjóra Síldarvinnslunnar, ekki á óvart: „Það er ánægjulegt að fá það enn einu sinni staðfest að við erum með launamálin hjá okkur í góðu lagi. Það tilheyrir grárri forneskju að mismuna fólki í launum eftir kyni, uppruna eða af öðrum ómálefnalegum ástæðum“, segir Hákon.

Deila: