Katalónsk fiskisúpa

230
Deila:

Nú fáum við okkur súpu, alveg yndislega súpu sem er svo matarmikil að hún er flott í heilan málsverð. Þetta er ljúffeng og holl súpa og auðveld í matreiðslu. Innihaldið er auðvelt að nálgast  og þá er bara að sækja það og hefjast handa og efna til veislu.

Innihald:

  • 250g hvítur fiskur, ýsa eða þorskur, flökin skorin í 2,5 sentímetra teninga
  • 250g skelflett rækja
  • 250g skelflettur humar, garnhreinsaður
  • sjávarsalt og nýmalaður pipar
  • 3 msk. ólívuolía
  • 4 hvítlauksrif skorin í þunnar sneiðar
  • 2 tómatar skornir í teninga
  • 250g kartöflur flysjaðar og skornar í tenginga
  • ½ bolli af hvítvíni
  • 2 bollar fiski- eða kjúklingasoð
  • 1 msk. saffranþræðir
  • 1 tsk sykur

Sósa:

  • 10 möndlur
  • 1 stór hvítlauksgeiri
  • ½ msk. ólívuolía
  • 1 msk. steinselja

Aðferð:

  1. Kryddið fiskinn með salti og pipar og leggið til hliðar.
  2. Hitið ólívuolíuna á djúpri pönnu. Setjið tómatana og hvítlaukinn út á og látið krauma og hrærið vel í uns tómatarnir eru orðnir að þéttu mauki.
  3. Bæti þá kartöflunum og víninu út á og hellið nægilega miklu af soði út á til að fljóti yfir kartöflurnar. Bætið salti, saffrani og sykri út á. Lokið pönnunni og látið sjóða á lágum hita í um 15 mínútur eða þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar.
  4. Ristið möndlurnar og hvítlauksgeirann í olíu á pönnu þar til hvort tveggja er orðið gullið. Látið þá olíuna renna af á pappír. Setjið það þá í mortél og malið í mauk og bætið steinseljunni út í. Þetta má reyndar gera í matvinnsluvél líka. Setjið í skál og hellið einni ausu af soði út í og hrærið vel saman og leggið til hliðar.
  5. Bætið nú fiskinum og humrinum út á pönnuna og hellið sósunni útí líka. Látið sjóða í 3 mínútur og bætið síðan rækjunni útí og látið hana hitna. Stráið steinselju yfir og berið fram með góðu brauði og glasi af hvítvíni fyrir þá, sem það vilja.

 

Deila: