Kaup á Kambi og Grábrók staðfest

Deila:

Hluthafafundur Brim hf. samþykkti eftirfarandi tillögur, annars vegar tillögu um staðfestingu á kaupum á öllu hlutafé í Fiskvinnslunni Kambi hf. og Grábrók ehf. og hins vegar tillögu um að fela stjórn félagsins að leggja fram til samþykktar eða synjunar í síðasta lagi til aðalfundar á árinu 2020, tillögur sem miða að því að auka möguleika erlendra aðila til óbeinnar fjárfestingar í félaginu.

Fyrri tillagan:

Hluthafafundur Brim hf. þann 12. desember 2019 staðfestir með hliðsjón af af 95. gr. a. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, ákvörðun stjórnar frá 14. nóvember 2019 um kaup á öllu hlutafé í Fiskvinnslunni Kambi hf. og Grábrók ehf. Kaupverðið nemur samtals 3.084 milljónum króna og verður greitt að hluta með hlutabréfum í Brimi hf. sem eru í eigu félagsins og nema um 1,1% af heildarhlutafé Brims hf. að verðmæti um 835 milljónir króna.

Seinni tillagan:

Hluthafafundur Brim hf. þann 12. desember 2019 samþykkir að fela stjórn félagsins að kanna og leggja í síðasta lagi fram til samþykktar eða synjunar á aðalfundi félagsins, sem haldinn verður á árinu 2020, tillögur sem miða að því að auka möguleika erlendra aðila til óbeinnar fjárfestingar í félaginu, eftir einhverri af eftirtöldum leiðum, allt eftir því sem stjórn metur hagkvæmast fyrir félagið:

Leið A: Að færa allan rekstur Brims hf. í 100% dótturfélag þess, eftir atvikum á grundvelli skiptingaráætlunar skv. 133. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995. Eftir tilfærsluna verður Brim hf. einungis eigandi 100% hlutafjár í hinu nýja félagi og tilgangur þess breytist úr því að vera sjávarútvegsfyrirtæki yfir í að vera eignarhaldsfélag um þann hlut. Skráning hlutafjár félagsins í íslenskri kauphöll verði óbreytt en erlendum aðilum þar með heimilað að eignast takmarkaðan hluta hlutafjárins.

Leið B: Að hlutafé erlends félags, sem er eigandi allt að 25% hlutafjár í íslensku félagi, sem á 100% hlutafjár í Brimi hf., verði tekið til skráningar og viðskipta á skipulegum, erlendum hlutafjármarkaði, t.d. í kauphöll í Osló, Noregi. Gæta ber sérstaklega að jafnræðisreglum hlutafélagalaga við útfærsluna.

Leið C: Að stjórn kanni og meti hvort aðrar leiðir en að framan greinir séu hagkvæmari og ákjósanlegri fyrir félagið til að ná þeim markmiðum sem lýst er í tillögu þessi, þe. að auka möguleika erlendra aðila á óbeinum fjárfestingum í Brimi hf.

Deila: