-->

Kaupa bát og rækjukvóta til Bolungarvíkur

Mýrarholt ehf., í Bolungarvík hefur keypt togbátinn Margréti SH 177 frá Rifi. Fyrirtækið keypti einnig 12% aflahlutdeild í innfjarðarækju í Ísafjarðardjúpi. Guðmundur Einarsson útgerðarmaður í Bolungarvík á Mýrarholt ásamt Jóni Þorgeiri bróður sínum og sonum þeirra beggja. 

Frá þessu er sagt á heimasíðu Bæjarins besta. Guðmundur var í prufusiglingu á Breiðafirði þegar blaðamaður BB náði í hann. Aðspurður hvort frekari aflaheimildir en hlutdeildin í Djúprækjunni hafi fylgt með í kaupunum segir Guðmundur svo ekki vera. „Því er nú verr og miður, það verður ekki ennþá í það minnsta,“ segir Guðmundur. Báturinn verður fyrst og fremst á rækju en Guðmundur segir að seinna komi í ljós hvort að önnur tækifæri opnist, til að mynda með dragnótarveiðar. Rækjukvótinn sem Guðmundur og félagar kaupa var áður á Matthíasi SH sem var á rækjuveiðum í Ísafjarðardjúpi í vetur.
Báturinn hét áður Valgerður BA 45 Upp í kaupin fara tveir handfærabátar 7160. Ásdís ÍS 2 og 7388. Vísir ÍS 424. Margrét SH er smíðuð í Póllandi og kláruð hjá Ósey í Hafnarfirði árið 1999. Báturinn var skutlengdur árið 2008 og hefur áður borið nöfnin Friðrik Bergmann SH, Bára SH og Valgerður BA.
Meðfylgjandi mynd er fengin af heimasíðu BB, en ljósmyndari er Ingólfur Þorleifsson.