Kínversk ýsa

Deila:

„Hljómar skringilega kannski, kínversk ýsa, en þessi réttur er algjört nammi, algjör dekurýsa og alveg þess virði að prófa hann. Bráðhollur réttur í þokkabót. Mig minnir að upprunalega hafi þessi uppskrift komið úr Nýkaupsbókinni hans Sigga Hall en ég er lítillega búin að breyta uppskriftinni (nota kókosolíu í stað ólífuolíu, tamarisósu í stað sojasósu og agavesíróp í stað sykurs).“

Svona hljómar inngangur að eftirfarandi uppskrift á vefsíðunni cafesigrun.com og við mælum með því lesendur okkar prufi að elda ýsu á kínverskan hátt.

Innihald:

800 g ýsuflök, beinhreinsuð og roðflett

1 msk kókosolía

1 msk sesamolía

3 msk tamarisósa

1 msk hvítvínsedik (e. hvítvínsedik) eða hrísgrjónaedik

Nokkrir steviadropar án bragðefna eða 1 msk agavesíróp

3 sm bútur ferskt engifer, afhýtt og saxað mjög smátt

3 hvítlauksrif, afhýdd og söxuð smátt

4-8 vorlaukar (eftir stærð), skornir í 5 sm bita (ljósi og græni hlutinn)

1 rauð eða gul paprika, skorin í strimla

Smá klípa svartur pipar

Aðferð:

Skerið ýsuna í 12 jafnstóra bita.

Blandið saman í skál; kókosolíunni, tamarisósunni, hvítvínsedikinu og steviadropum. Hrærið vel.

Afhýðið engiferinn og hvítlaukinn og saxið smátt. Setjið út í skálina.

Skerið vorlaukana í 5 sm bita og setjið í skálina.

Skerið paprikuna langsum, fræhreinsið og skerið hana í strimla. Setjið út í skálina.

Hellið innihaldi skálarinnar yfir ýsubitana. Látið ýsubitana liggja í vökvanum í 1-2 klukkustundir eða lengur

Takið ýsubitana upp úr og leggið í eldfast mót.

Takið sem mest af grænmetinu sem er í skálinni og látið það með skeið ofan á ýsubitann. Hellið vökvanum yfir ýsubitana.

Kryddið svolítið með svörtum pipar.

Hitið ofninn í 140°C og bakið fiskinn í 10-15 mínútur.

Berið fram með hýðishrísgrjónum eða byggi og tamarisósu.

Nota má gula papriku í staðinn fyrir rauða.

Nota má annan fisk í staðinn fyrir ýsu t.d. þorsk, steinbít eða lúðu.

Deila: