Kirkella verkefnalaus vegna skorts á fiskveiðisamningum

106
Deila:

Tilraunir breskra yfirvalda til að gera fiskveiðisamninga vegna veiða í Barentshafi og við Grænland hafa engum árangri skilað. Fyrir vikið er frystitogarinn Kirkella bundin við bryggju í Hull, en UK Fisheries gerir skipið út. Þetta kemur fram í fréttabréfi Fishing News.

Ekki hefur tekist að gera fiskveiðisamninga við Grænland, Færeyjar og Noreg eftir að Bretar yfirgáfu Evrópusambandið. Fyrir útgönguna hafði Kirkella rúmar veiðiheimildir á norðurslóðum, en nú hefur skipið aðeins farið eina veiðiferð á miðin við Svalbarða.

„Síðan Bretland gekk úr ESB hefur ekki tekist að gera einn einasta samning við strandríkin í nágrenni við okkur. Frammistaða ríkisstjórnarinnar versnar bara,“ segir talsmaður UK Fisheries. „Kirkella er bundin við bryggju og áhafnir okkar eru án atvinnu. Ríkisstjórnin verður að ná samningum um þessar veiðar, ef við ætlum að viðhalda veiðum á fjarlægum miðum frá Norðaustur-Englandi.

Fyrirtækið bendir á að meðan engir samningar hafi náðst við Noreg, Grænland, Ísland og Færeyjar, bjóði bresk stjórnvöld viðskiptalöndum eins og Noregi tollfrjálsan aðgang inn á mikilvæga fiskmarkaði og markaði fyrir fiskafurðir, en fái ekkert í staðinn.

„Þetta þarf ekki að vera svona. Við erum ekki að biðja stjórnvöld um peninga, heldur skýra stefnu fyrir samningamenn okkar þess efnis að þeir verði að ná þessum samningum og ef ekki verði þeir að vera tilbúnir til þess að beita innflutningstollum á innflutning fiskafurða, fáist engar veiðiheimildir.

Náist engir samningar munu þessar mikilvægu veiðar sem staðið hafa öldum saman að engu verða, sama má segja um fjárfestingar í fiskiðnaðinum, sem annars á sér góða framtíð á norðaustanverðu Englandi,“ segir talsmaður fyrirtækisins.

Deila: