Koli í sítrónusósu

466
Deila:

Nú fáum við okkur kola. Það eru reyndar til nokkrar tegundir af kola og líklega er rauðsprettan algengust, en auðvitað er hægt að nota hvaða kolategund í réttinn. Hann er fljótlegur og einfaldur í matreiðslu og afskaplega bragðgóður.

Innihald:

4-6 miðlungsstór kolaflök, roð- og beinlaus, samtals um 800g
1 msk. sítrónusafi
3 msk. brætt smjör
1 tsk. hvítlaukur, marinn
½ tsk. sterkt paprikuduft
½ tsk. salt
½ tsk. nýmalaður svartur pipar
1 sítróna í þunnum sneiðum
1 msk. steinselja, smátt söxuð

Aðferð:

Forhitið ofninn í 180°C. Þvoið kolaflökin, og þerrið þau síðan með eldhúspappír. Raðið flökunum í hæfilega stórt eldfast mót.
Hrærið saman í skál sítrónusafanum, smjörinu, hvítlauknum, paprikuduftinu, salti og pipar.

Hellið leginum jafnt yfir flökin og leggið sítrónusneiðar á hvert flak. Bakið fiskinn í 15 til 20 mínútur. Tíminn fer nokkuð eftir þykkt flakanna. Venjulega eru kolaflök þunn þannig að 15 mínútur ætti að vera yfrið nóg.

Berið fiskinn heitan fram og skreytið með sítrónusneiðum og steinselju. Með þessum rétti er gott að hafa nýjar soðnar kartöflur, salat að eigin vali og gott brauð.

Deila: