Kolmunnaskipin bíða skimunar

88
Deila:

Kolmunnaskipin liggja enn í Norðfjarðarhöfn og bíða áhafnir þeirra eftir niðurstöðu skimunar fyrir Covid-19. Ráðgert er að halda til veiða á gráa svæðinu suður af Færeyjum strax og niðurstaða liggur fyrir síðar í kvöld eða á morgun. Áhafnir Barkar NK og Beitis NK fóru í skimun eystra á laugardag og áhöfn Bjarna Ólafssonar AK fór einnig í skimun.

Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóri á Berki, segist vonast eftir að enginn sé sýktur og þá sé ekkert því til fyrirstöðu að leysa landfestar. „Þetta hafa menn aldrei upplifað áður, en það er gríðarlega mikilvægt að haldið sé til veiða á fjarlæg mið á sóttfríu skipi. Í fyrra hófum við veiðar á gráa svæðinu 6. apríl og á undanförnum árum hefur veiði hafist þarna á bilinu 5.-12. apríl. Við höfum að vísu ekki fengið neinar fréttir af veiði þarna núna. Það er ekki óalgengt að á þessu svæði hafi verið byrjað að veiða geldfisk sem heldur sig þarna en síðan hefur göngufiskurinn komið inn á svæðið og veiði oft verið góð,“ segir Hjörvar í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, segir að Íslensk Erfðagreining og Heilbrigðisstofnun Austurlands eigi heiður skilið fyrir hvernig þau brugðust við bón fyrirtækisins um skimun áhafnanna.

„Það voru 20 sjómenn af uppsjávarskipum frá okkur sem fóru í skimun á laugardaginn hjá þeim.  Brugðist var mjög skjótt við beiðni okkar og var skimuninni komið við með skömmum fyrirvara. Við viljum senda Íslenskri erfðagreiningu og HSA okkar bestu þakkir fyrir.  En þrátt fyrir skimunina er mikilvægt að sjómennirnir virði umgengisreglur um borð í skipunum, haldi fjarlægð á milli sín, vandi sig við handþvott og sótthreinsun og svo framvegis.  Þó skimun leiði í ljós að menn séu ekki sýktir,  geta þeir samt borið veiruna þannig að öllum reglum verður að fylgja í hvívetna. Það er reyndar ánægjulegt að finna hvað starfsmenn fyrirtækisins eru tilbúnir að laga sig að þeim reglum sem settar hafa verið vegna Covid-19.  Þessu fylgja áskoranir, ýmsar skerðingar og breytingar. Ég er afar þakklátur þeim samtakamætti sem starfsmenn sýna nú á þessum erfiðu tímum þar sem við erum öll staðráðin í að gera það sem við getum til að forðast veiruna,“ segir Gunnþór.
Ljósmynd Smári Geirsson.

 

Deila: