-->

Kolmunnaveiðin hafin á ný

Kolmunnaveiði íslensku fiskiskipanna suður af Færeyjum, er nú hafin á ný. Skipin lágu í Færeyjum um tíma meðan lítið sem ekkert var af kolmunna að hafa innan færeysku lögsögunnar nema smár fiskur. Mikið er af honum á slóðinni. Íslensku skipin mega aðeins veiða kolmunna í eigin lögsögu, innan þeirrar færeysku og á alþjóðlegum hafsvæðum. Kolmunninn er nú á hraðri göngu frá hrygningarslóðinni norður eftir í ætisgöngu.
Síldarvinnsluskipin Börkur og Beitir héldu úr höfn í Færeyjum á mánudagskvöld áleiðis á kolmunnamiðin suður af eyjunum. Börkur hóf veiðar strax og á miðin var komið en bilun kom upp í annarri aðalvél Beitis og var þá haldið til hafnar í Fuglafirði þar sem unnið er að viðgerð.
Heimasíða Síldarvinnslunnar hafði samband við Sturlu Þórðarson skipstjóra á Berki og lét hann þokkalega af sér. Sagði hann að fiskurinn væri að ganga inn á veiðisvæðið og væru sumir íslensku bátanna að hitta í gott en 12 íslensk skip mega veiða samtímis í færeysku lögsögunni. Sagði Sturla að þeir á Berki væru búnir að fá 800 tonn í tveimur holum og væru nú að toga. Tæplega  300 tonn fengust í fyrra holinu og rúmlega  500 í því síðara. „Þetta gengur bara orðið nokkuð vel“, sagði Sturla á heimasíðunni.
Hoffell SU er nú á landleið til Fáskrúðsfjarðar með rúm 1100 tonn af kolmunna sem veiddist í Færeysku lögsögunni. Veiðiferðin er tekin í beinu framhaldi af slipp í Þórshöfn í Færeyjum, þar sem skipið var botnhreinsað og málað.