Kolmunnaveiðum í lögsögu Færeyja að ljúka

93
Deila:

Kolmunnaveiðum íslenskra skipa í færeyskri lögsögu er að ljúka. Bjarni Ólafsson AK landaði 1500 tonnum í Neskaupstað í gær og í dag er Börkur NK að landa þar rúmlega 1600 tonnum. Nú er Margrét EA eitt íslenskra skipa á miðunum og mun hún væntanlega koma fljótlega til löndunar. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi stuttlega við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra á Berki og spurði hvort veiðin hefði verið orðin léleg.

„Já, veiðin vestur af Færeyjum, þar sem við vorum, var orðin afskaplega léleg en það mun vera ennþá eitthvað nudd norðaustur af eyjunum þar sem Færeyingarnir hafa verið að veiða. Allri kraftveiði er lokið í færeyskri lögsögu. Nú verður væntanlega ekki farið að hugsa um kolmunnaveiðar á ný fyrr en komið verður fram í nóvembermánuð,“ segir Hjörvar.

Næst á dagskrá hjá skipunum er makrílvertíð og er verið að undirbúa þau fyrir hana.

Ljósmynd Smári Geirsson.

 

Deila: