Kom til að leita betra lífs

104
Deila:

„Við ætlum aðeins að líta bak við tjöldin og kynnast Michal Czerwonka sem er fæddur í Póllandi og kom til Íslands frá litlum bæ, um 30 kílómetra frá Lublin eða 1200 kílómetra beint í suður frá Varsjá. Michal er verkstjóri í vöruhúsi og hefur starfað hjá Samskipum í rúm tólf ár. Við tókum hann tali og fræddumst um hvernig það bar að.“ Þannig hefst viðtal við Michal á heimasíðu Samskipa og fer það hér á eftir:

Flutti frá stressinu í Póllandi til Íslands fyrir 12 árum

„Ég er giftur pólskri konu og á þrjú börn, 17 ára stelpu, 16 ára strák og annan strák sem er að verða sex ára, á leið í grunnskóla, og er fæddur á Íslandi. Ég kom til Íslands til að leita betra lífs og betri vinnu. Ég hafði unnið í Þýskalandi í eitt ár og átti frænku á Íslandi sem stakk upp á því að við myndum prófa það að koma til Íslands. Ég kom ári á undan fjölskyldunni. Það var vont ástand í Póllandi á þessum tíma – það var svosem næga vinnu að hafa en hún var mjög illa launuð og erfitt að lifa af laununum þótt við værum bæði að vinna“ segir Michal en algengt er í Póllandi að samningar við launþega séu einungis framlengdir viku í senn en slíkt er mikill stressvaldur í lífi pólskra fjölskyldna.

Stressið svo mikið að fólk ekur áfram á grænum kalli
Aðspurður hvort veðrið á Íslandi hafi ekki truflað Michal eitthvað brosir hann bara og segir „neihei. Maður er bara alltaf inni í húsi og veðrið skiptir þá engu máli. Þegar maður flutti hingað til Íslands þá tók maður fyrst eftir því hvað Íslendingar eru rólegir. Hér öskrar enginn og tímapressan er ekki svona mikil eins og maður þekkir í Póllandi þar sem er mikið stress og mikil hlaup. Hér eru bara allir ánægðir ef maður er duglegur. Ef maður fékk góða vinnu í Póllandi þá varð maður að sýna meira og meira. Það eru rosalega miklar kröfur til manns og mikið stress og ég er ekki bara að tala um í vinnunni. Þetta sést á götum í Póllandi. Þar stoppar enginn fyrir gangandi fólki heldur eru allir að flýta sér. Á Íslandi sér maður bíla stoppa fyrir fólki við gangbraut og það er miklu meiri kurteisi hér. Ég held þetta sé tengt pólskri menningu en svo þekki ég hana reyndar ekki eins mikið og margir aðrir Pólverjar því ég var bara þrjú ár á vinnumarkaði í Póllandi áður en ég kom til Íslands. Ég reyndar tók eftir þessu í Þýskalandi líka. En í alvöru, það er kannski grænn kall á ljósi fyrir gangandi vegfarendur og ég er búinn að kenna stráknum mínum að það verði að fylgjast með bílunum því þeir keyra bara samt áfram þótt það sé grænn kall fyrir gangandi vegfarendur. Þetta heitir eitthvað í pólsku, man ekki hvað samt.“

Fylgist vel með fótboltanum

„Þegar við fórum í ESB og Schengen þá breytti það mikið fyrir okkur í Póllandi. Það var þá um 2005-2006 sem Pólverjar komu í meira mæli til Íslands, en það hefur svo aukist mjög mikið síðan. Hér er ágætis samfélag hjá okkur. Við fylgjumst mikið með fótboltanum og leigjum t.d. sal til að spila yfir veturinn og spilum úti á sumrin. Ég er markmaður sjálfur og maður fylgist með pólskum leikmönnum í erlendum liðum eins og Juventus, AC Milan og Bayern Munchen – maður fylgist ekki mikið með enska boltanum eins og flestir gera hér á Íslandi. Við förum einstaka sinnum á Ölver til að horfa á boltann. Þannig að það eru ekki bara vinnufélagarnir heldur líka vinir sem maður á hérna utan vinnu.“

Michal hefur líkað vel á Íslandi enda er fjölskyldan sest að hér. „Konan mín á bróðir sem er líka að vinna á Íslandi og við erum komin með smá fjölskyldu hér. Við reynum hinsvegar alltaf að fara til Póllands í sumarfrí og hitta mömmu og pabba og fjölskylduna – við reynum að ná allt að sex vikna fríi.“

„Ég elska að fara í útilegur og tjalda en við höfum nú ekki mikið verið að gera það á Íslandi“ segir Michal og hlær.  „En við förum mikið í sumarbústað, sérstaklega hjá Samskipum og við reynum að grípa tækifærið þegar Samskipabústaðurinn er laus. Við höfum líka ekið um allt Ísland. Við erum búin að fara hringinn þrisvar og búin að skoða allt landið nema Vestmannaeuyjar. Ég er hrifinn af Húsavík og Djúpavogi og það er mjög gaman að fara um Vestfirði. Og eins Egilsstaði og Seyðisfjörður er líka fallegur. Það er margt fallegt á Íslandi fyrir útlendinga – það eina sem mér finnst ekki fallegt er að keyra frá Keflavík til Reykjavíkur. Það er allsstaðar flott útsýni annars á Íslandi. Reyndar ekki mjög spennandi að keyra til Akureyrar heldur. En hin leiðin er mjög falleg, austur fyrir.

Lærði mikið á flutningaskóla Samskipa

„Ég starfa sem verkstjóri í vöruhúsi og í hýsingu erum við tveir, týnslustjóri og móttökustjóri og við blöndum þessu reyndar dálítið saman því við sinnum báðum störfum. Starfsmenn í móttöku og týnslu gera þetta líka enda eru allir að reyna að vinna sem ein stór fjölskylda. Það er mikið af útlendingum, ekki margir Íslendingar eftir því miður enda sennilega mikið af Íslendingum sem hafa fært sig yfir í ferðaþjónustuna núna“ segir Michal. „Ég byrjaði hinsvegar að vinna á pallinum og fór svo í flutningaskóla Samskipa og eftir flutningaskólann fór ég í vöruhúsið og hef svo unnið mig upp þar – ég held ég hafi byrjað sem verkstjóri 2011. Flutningaskólinn var mjög gagnlegur og fyrsta verkefnið var að læra meiri íslensku – þetta verður að vera fyrsta verkefni allra útlendinga á Íslandi finnst mér – læra meiri íslensku. Það munar miklu þegar maður byrjar að tala. Ég get líka alveg talað þýsku og rússnesku og það kemur sér stundum vel í vinnunni.“

Michal segist kunna vel við félagslífið hjá Samskip og mætir á árshátíðina með sínum félögum. Eitt er hinsvegar til vandræða og það, er eins og oft áður, mötuneytið segir Michal um leið og hann sýnir mynd af sér 40 kílóum léttari. „Maður þyrfti að vera duglegri að fara í ræktina en maður hefur verið að vinna mikið til að safna sér fyrir íbúð og núna er maður að spá í annan bíl og þá vinnur maður frekar en að fara í ræktina. Við erum í Breiðholti og keyptum fyrir tveimur árum síðan en það getur verið erfitt fyrir útlendinga að kaupa sér íbúð hérna, reyndar er það erfitt fyrir alla held ég, en við vorum heppin.“

Allt á réttri leið
„En annars er mikið líf hérna núna. Þegar ég kom 2006 þá var mikið við að vera og svo datt þetta dálítið niður í kringum kreppuna en ég held að þetta sé að koma núna aftur. Það eru fleiri viðburðir með starfsfólki og mér finnst bara frábært að vinna hérna. Það er auðvitað alltaf hægt að laga og bæta og við erum gera það. Við finnum líka að við erum að þjónusta viðskiptavini betur með nýja siglingakerfinu. Það munar rosalega um að geta flutt vöru á þremur dögum í staðinn fyrir sjö. Þannig að þetta er allt á réttri leið“ segir Michal.

 

Deila: