Krókabátar búnir með ýsuna

124
Deila:

Þorskveiðar í janúar hafa verið með eindæmum góðar.  Afli krókabáta um 60% meiri en í fyrra. Miðað við fyrstu 5 mánuði fiskveiðiársins hefur þorskafli í janúar rétt af áætlanir, þar sem hann er um 4% umfram það sem veiðst hafði á sama tímabili á síðasta fiskveiðiári.

„Helstu áhyggjur manna nú liggja í ýsunni.  Ekki svo að hún fáist ekki heldur að veiðiheimildir eru ekki í neinu samræmi við aflabrögð.  Á það jafnt við veiðar með línu og botnvörpu.   Á tímabilinu september – janúar hafa veiðst rúm 25 þúsund tonn af ýsu á móti 18.396 á sama tíma í fyrra.  Aukning í botnvörpu er 40% á milli ára og á línuna er ýsuafli um þriðjungi meiri. Sv segir í heimasíðu Landssambands smábátaeigenda. Þar segir ennfremur:

Úthlutaðar veiðiheimildir uppurnar

„Í janúar hefur hægst á ýsuveiði krókabáta, enda úthlutaðar veiðiheimildir uppurnar.  Úthlutað aflamark þeirra á fiskveiðiárinu er 5.357 tonn á móti 4.911 tonnum á fiskveiðiárinu 2019/2020 sem svarar til 9% aukningar.

Nú er staðan þannig að afli til aflamarks er kominn í 6.121 tonn sem er 40 tonnum umfram þeirra heimildir þegar tekið hefur verið tillit til sérstakrar úthlutunar og færslu milli ára.  Það sem heldur krókabátum gangandi er heimild til að flytja þorsk í aflamarkskerfið og fá ýsu í jöfnum skiptum á móti inn í krókaaflamarkskerfið.   Alls 1.517 tonn af ýsu hafa þannig bæst við heimildir krókabáta sem látið hafa frá sér 1.368 tonn af þorski.

Síendurteknar mælingar á loðnu eru ekki síður mikilvægar þegar ýsan á í hlut.“

 

Deila: