-->

Krydduð lúðusúpa frá Nýfundnalandi

Þessa helgina er mikið borðað af fiskisúpu, sérstaklega á Dalvík þar sem fiskidagurinn mikli er haldinn að vanda. Þar er margt um dýrðir og fiski í tonnavís sporðrennt. Veitingarnar eru neytendum að kostnaðarlausu og mikið lagt í fjölbreytni og gæði. Upphaf hátíðarinnar er svokallað súpukvöld, þegar heimamenn bjóða gestum og gangandi upp á fiskisúpur á heimilum sínum og eldar hver eftir sínu höfði. Í tilefni þessa merkisdags bjóðum við upp á fiskisúpu, reyndar ekki ættaða frá Dalvík, heldur Nýfundnalandi, þar sem fiskur og fiskneysla er í hávegum höfð eins og á Dalvík. Dalvíkingar eiga mikinn heiður skilið fyrir þetta einstaka framtak til að halda á lofti mikilvægi íslensks sjávarútvegs og hollustu fiskneyslu.

Innihald:
500 gr. lúða
3 msk. smjör
½ bolli saxaður laukur
½ bolli saxað sellerí
500 ml. niðursoðnir tómatar
500 ml. tómatsafi
6 msk. tómatsósa
½ bolli söxuð græn paprika
½ bolli hrísgrjón
½ tsk. chillisósa
1 tsk. Worcestersósa
2 dropar af tabascosósu
2 hvítlauksrif
2 msk. kryddblanda (pickling spice)
Aðferð:
Setjið lúðuna, auðvitað er hægt að nota annan fisk, í kalt vatn og hitið að suðu. Takið fiskinn upp úr pottinum og losið í „flögur“. Léttsteikið lauk, sellerí og paprikuna í smjöri í stórum potti. Bætið síðan í pottinn 850 millilítrum af vatni, tómötunum, tómatsafanum, tómatsósunni hrísgrjónunum, chillisósu og hvítlauk og kryddblöndu. Það tvennt síðastefnda er gott að hafa í kryddpoka eða grisju til að ná úr því kryddinu, en einnig má setja það beint í súpuna. Látið þetta sjóða við vægan hita í 20 mínútur. Þá fer lúðan út í og súpan hituð á ný og kryddpokinn veiddur upp úr. Þá er súpan tilbúin á borðið. Þetta er fremur stór uppskrift, hugsuð fyrir 10 manns.