Kvíði ekki verkleysi

Deila:

Guðlaug Jónsson skipstjóra, eða Gulla eins og hann er jafnan nefndur, er óþarft að kynna fyrir þeim sem fylgst hafa með uppsjávarveiðum undanfarna áratugi. Nú er Gulli hins vegar hættur störfum, 67 ára gamall, en hann var síðast með Venus NS. Gulli segist hafa sagt upp fyrir ári síðan en 1. apríl sl. lét hann formlega af störfum. ,,Ég gat haldið áfram að vinna til sjötugs en niðurstaða mín var að þetta væri orðið gott.,“ segir Gunnlaugur í viðtali á heimasíðu HB Granda.

Nú eru rétt tíu ár síðan Gulli var í viðtali hér á heimasíðu HB Granda um sjómannadagshelgi en þá hafði hann þetta að segja um ferilinn:

,,Ég var ekki nema 11 eða 12 ára gamall þegar ég fór fyrst á sjó en það var á síldarbátnum Hafþóri frá Reykjavík. Ég var svo á sjó á hverju sumri á ýmsum bátum fram til ársins 1967, reyndar launalaust, en þá var ég ráðinn sem fullgildur háseti á Ásbergi RE sem Ísbjörninn hf. gerði út. Ég fór í Stýrimannaskólann haustið 1970 en áður hafði ég farið nokkrar ferðir á fraktskipum. Ég kláraði farmannsprófið við skólann árið 1973 og í framhaldinu var ég stýrimaður á Helgu II RE í tvö ár og afleysingaskipstjóri á árinu 1974. Ári síðar var ég aftur kominn yfir á Ásberg RE sem stýrimaður og afleysingarskipstjóri,” segir Guðlaugur en töluverð breyting varð á hans högum á árinu 1978 er hann tók við sem skipstjóri á Dagfara ÞH sem þá var þekkt aflaskip.

Hringnum lokað

,,Ég var með Dagfara ÞH næstu sex árin eða fram til 1984 er ég var ráðinn skipstjóri á Jóni Finnssyni RE. Það starf entist þó skemur en ráð hafði verið fyrir gert því skipið var selt hálfu ári síðar. Þá fór ég í afleysingar á ýmsum skipum fram til ársins 1987 en þá tók ég við skipstjórn á Jóni Finnssyni RE. Það var nýtt uppsjávarveiðiskip sem smíðað var í Póllandi,” segir Guðlaugur en þess má geta að það skip fékk nafnið Faxi RE og var það gert út af HB Granda líkt og Ingunn AK sem Guðlaugur var skipstjóri á.

Önnur tímamót urðu hjá Guðlaugi á árinu 1993 þegar hann réðst til starfa hjá Miðnesi í Sandgerði.

,,Ég var á Keflvíkingi KE fyrstu árin en tók síðan við Elliða GK, sem keyptur hafði verið til landsins, árið 1996. Um áramótin 1996/97 voru Miðnes og Haraldur Böðvarsson sameinuð í eitt félag en ég hélt mínu starfi sem skipstjóri á Elliða GK. Óli frá Sandgerði GK kom síðan í flotann árið 1999 og ég var með það skip í tvö ár eða þar til Ingunn AK var keypt til landsins. Þar hef ég verið skipstjóri allar götur síðan og það má að mörgu leyti segja að ég hafi lokað hringnum og komið heim þegar ákveðið var að sameina Granda hf. og Harald Böðvarsson hf. í ársbyrjun 2004. Ég hóf jú sjómennskuferilinn hjá Ísbirninum sem er eitt þeirra fyrirtækja sem eru forverar HB Granda eins og menn þekkja fyrirtækið í dag.”

Stærri og öflugari skip

Þetta hafði Gulli að segja þá en hann hefur verið, sem fyrr segir, skipstjóri á Venusi síðstu árin eða allt frá því að skipið kom nýtt til landsins.

,,Það er ómögulegt að rifja upp einstaka viðburði eða breytingar á þessum árum. Mesta breytingin er þó vafalaust í skipunum sjálfum. Þau eru orðin stærri og öflugari og það hefur svo kallað á samsvarandi þróun veiðarfæra.“

— En hvað tekur nú við?

,,Lifa lífinu. Það er kominn tími til þess og verja meiri tíma með fjölskyldunni. Það er nóg að gera og ég kvíði ekki verkleysi,“ segir Guðlaugur Jónsson.

,,Það er búið að vera einstaklega gott að vinna með Gulla þau ár sem ég hef komið að rekstri uppsjávarsviðs félagsins. Það eru forréttindi að vinna með mönnum sem stunda sína vinnu af lífi og sál og leggja allan sinn metnað í að ná sem bestum árangri,“ segir Garðar Svavarsson, hjá uppsjávarsviði HB Granda, um þessi tímamót.

Að sögn Garðars hefur Guðlaugur reynst HB Granda afar vel, leitt þróun veiðarfæra uppsjávarskipanna, leikið stórt hlutverk í þeim mikla árangri sem náðst hefur í auknum gæðum uppsjávarafurða síðustu árin og síðast en ekki síst fiskað afskaplega vel.

,,Við Ingimundur útgerðarstjóri höfum eðlilega átt í miklum samskiptum við Gulla síðustu árin og þó hann sé horfinn til annarra verka þykjumst við nú vissir um að hann muni áfram fylgjast vel með og kíkja í kaffi til okkar af og til,“ segir Garðar Svavarsson.

 

Deila: