Læra fullt um fiska

Deila:

„Við erum búin að læra fullt um fiska, hvernig á að blóðga fisk og slægja og hvernig á að rannsaka hann og gá hvort það sé í lagi að borða hann,“ segir Emma Rós Ingvarsdóttir, nemandi í Sjávarútvegsskóla unga fólksins á Seyðisfirði við sjónvarpsþáttinn Landann.

Sjávarútvegsskóli unga fólksins var starfræktur í sjöunda sinn í sumar. Þetta byrjaði sem lítil hugmynd í Neskaupsstað fyrir nokkrum árum síðan en hefur undið upp á sig og í sumar var skólinn starfræktur á fimm stöðum á Austurlandi og fjórum stöðum á Norðurlandi.

Unglingar sem eru skráðir í vinnuskólann geta valið að fara í sjávarútvegsskólann í eina viku. Þar fræðast þau um sjávarútveginn frá ýmsum hliðum, læra að þekkja ólíkar fisktegundir og kynnast starfi björgunarsveitanna svo eitthvað sé nefnt.

Arnfríður Eide Hafþórsdóttir, sjávarútvegsfræðingur og ein þeirra sem sáu um kennsluna í sumar, segir að unglingarnir séu mjög áhugasamir. „Þau fara öll svo brosandi og glöð og stútfull af fróðleik eftir vikuna. Það er veruleg þörf á þessu og ég vildi bara sjá að þetta byrjaði fyrr.“

 

Deila: