Landeldi leysir sjóeldi ekki af hólmi

Deila:

„Af umræðu má greina að einhverjir séu þeirrar skoðunar að landeldi geti komið í stað sjókvíaeldis. Það má telja bæði óraunhæft og óskynsamlegt. Flestir sérfræðingar eru sammála um að framleiðsla úr landeldi muni ekki koma í stað framleiðslu úr sjókvíaeldi, heldur verði henni til viðbótar. Því má jafnframt halda til haga að þær aðstæður sem styðja við uppbyggingu landeldis á suðvesturhorni landsins eru ekki fyrir hendi á Austfjörðum og Vestfjörðum þar sem sjókvíaeldi er stundað í dag,“ segir meðal annars í nýrri ítarlegri samantekt Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um fiskeldismál. Í greininni er fullyrt að mikil tækifæri felist í áframhaldandi þróun og uppbyggingu fiskeldis í sjó og þannig sé ekki óraunhæft að heildarframleiðslan í sjó- og landeldi meira en tífaldist á næstu á næstu 10-15 árum.

„Gangi slíkar áætlanir eftir gæti það þýtt útflutningsverðmæti að andvirði í kringum 450 milljarða kr. Í því samhengi má hafa í huga að á liðnu ári nam samanlagt útflutningsverðmæti sjávar- og eldisafurða tæplega 400 milljörðum kr. Þessi mögulega aukning á laxeldi ein og sér þýðir því ríflega tvöföldun á þeim verðmætum.“

McKinsey sér mikil tækifæri
Vísað er í greininni um stór áform Norðmanna um umtalsverða framleiðsluaukningu í sjóeldi og eru þeir þó meðal stærstu fiskeldisþjóða heims. Jafnframt er vísað til greiningar ráðgjafafyrirtækisins McKinsey sem unnin var fyrir SFS en þar voru greind tækifæri til uppbyggingar fiskeldis við Íslandsstrendur.
„Með því að skilgreina ákveðin hliðarskilyrði taldi McKinsey unnt að nálgast það magn sjókvíaeldis sem raunhæft gæti verið að ráðast í til lengri tíma litið. Við það mat var byrjað á því að fjarlægja friðlýst náttúrusvæði og staðsetningar sem henta ekki vegna skipaumferðar, nálægðar við hafnarsvæði og nálægðar við árósa þar sem laxagengd er til staðar. Þá voru jafnframt fjarlægð svæði sem falla undir svokölluð bannsvæði, þ.e. svæði sem eru lokuð fyrir eldi frjórra laxa í sjó á grundvelli verndar villtra nytjastofna. Að teknu tilliti til þessara hliðarskilyrða var það niðurstaða McKinsey að eftir stæðu svæði sem gætu staðið undir 1,1 milljón tonna heildarframleiðslugetu.

Þrátt fyrir að tilgreind svæði kunni að teljast hagfelld út frá fyrrgreindum viðmiðum, þá má ætla að heildarframleiðsla upp á 1,1 milljón tonna sé óraunhæft markmið ef horft er til skemmri eða meðallangs tíma. Þar spilar margt inn í, s.s. fjárfestingargeta fyrirtækja, burðir stjórnsýslu til að sinna uppbyggingu, framkvæmdaáhætta tengd hraðri uppbyggingu og mögulegur hraði þróunar þjónustugreina fiskeldis. Þá er jafnframt ljóst að taka verður tillit til mögulegra áhrifa á hrygningar- og veiðisvæði helstu nytjastofna, enda eru mikil verðmæti í húfi í uppbyggingu þeirra fiskistofna sem nýttir eru í hefðbundnum sjávarútvegi. Það má sannarlega hugsa stórt þegar markmið eru sett til framtíðar, en það þarf einnig að sýna skynsemi og þekkja hinar ýmsu hindranir.

Til frekari vísbendingar um það hversu stórt hlutfall væri raunhæft að nýta má aftur horfa til Noregs. Samkvæmt greiningu McKinsey eru Norðmenn að nýta um 9% af fræðilega mögulegum framleiðslustæðum sínum. Ef sama hlutfall væri notað hér á landi gæfu 9% af 4,4 milljónum tonna alls um 400 þúsund tonn í heildarframleiðslu í sjókvíaeldi, miðað við óbreytta tækni og afköst sjókvía. Af þessu er ljóst að hafsvæðið í kringum Ísland felur í sér mikil tækifæri til að byggja enn frekar undir góð lífskjör komandi kynslóða.“

Til mikils að vinna
Í umfjöllun SFS segir að það sé ljóst að til mikils sé að vinna með metnaðarfullri og ábyrgri uppbyggingu sjó- og landeldis hér á landi.
„Eins og ofangreindar tölur bera með sér geta eldisafurðir orðið hornsteinn í fiskútflutningi frá Íslandi, ásamt sjávarútvegi. Allt sem eykur fjölbreytni útflutnings og verðmæta­sköpunar er til þess fallið að draga úr sveiflum í innlendum efnahag og byggja betur undir lífskjör okkar til framtíðar.

Hversu umfangsmikið fiskeldi á Íslandi kemur til með að verða mun að endingu ráðast af stefnumörkun stjórnvalda. Með hliðsjón af þeim miklu efnahagslegu- og samfélagslegu hagsmunum sem eru undir þá hljóta stjórnvöld að greiða leið ábyrgrar uppbyggingar í sem mestri sátt við umhverfi og samfélag. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að settar verði fram metnaðarfullar áætlanir um umfang fiskeldis til lengri tíma. Fyrrgreint sýnir að tækifærin eru svo sannarlega til staðar ef vilji stendur til.“

Samantekt SFS um fiskeldi

 

 

 

Deila: