Landtengingin fær myndarlega styrk

89
Deila:

Fyrr í þessum mánuði var búnaður til landtengingar uppsjávarskipa tekinn í notkun í Norðfjarðarhöfn en það er Síldarvinnslan sem er eigandi búnaðarins og hefur kostað þróun hans.
Í landtengingunni felst að skip, sem er að landa afla, fær raforku úr landi til að kæla aflann, dæla honum á land og sinna annarri raforkunotkun um borð í stað þess að framleiða orku með vélbúnaði sem nýtir olíu sem orkugjafa.

„Hér er um að ræða mikilvægt umhverfismál og samkvæmt fyrirliggjandi heimildum er þetta í fyrsta sinn sem fiskiskip eru landtengd með svo aflmikilli tengingu. Gert er ráð fyrir að þegar öll uppsjávarskip, sem landa afla í Neskaupstað, verði komin með tilheyrandi tengibúnað muni olíunotkun þeirra minnka um 300.000 lítra á ári.

Nýverið var úthlutað 470 milljónum króna úr Orkusjóði til yfir 100 verkefna í orkuskiptum og fékk Síldarvinnslan 19,5 milljóna styrk til verkefnisins „landtenging uppsjávarskipa.“ Það er ljóst að landtengingarverkefnið hefur vakið athygli víða og þykir afar jákvætt skref í orkuskiptum í íslenskum sjávarútvegi,“ segir í frétt frá Síldarvinnslunni.
Ljósmynd Smári Geirsson.

Deila: