-->

Langmest af fiskinum fer til Evrópu

Evrópa er mikilvægasta markaðssvæðið fyrir íslenskar sjávarafurðir. Árið 2012 voru sjávarafurðir að verðmæti 211 milljarða króna fluttar þangað út sem er 78,7% af heildar útflutningsvirði sjávarafurða. Verðmæti útfluttra sjávarafurða til Evrópu- landa jókst um 5,4 milljarða króna milli ára eða um 2,62%. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar.

Útflutningur til Asíu nam 23,6 milljörðum króna eða um 8,8% af heildarútflutningsvirði sjávarafurða og jókst um 7% milli ára. Útflutningur til Afríku nam 16,7 milljörðum króna árið 2012, sem er 6,2% af útflutningsvirði sjávarafurða. Bretland er mikilvægasta viðskiptalandið. Fluttar voru út vörur þangað fyrir tæpa 47 milljarða króna eða sem nemur 17,4% af útflutningsverðmæti 2012. Til Noregs voru seldar afurðir fyrir 21 milljarð eða sem nemur 7,9% útflutningsverðmætis. Þar á eftir komu Spánn, Rússland, Frakkland, Nígería og Holland.
Af einstökum afurðaflokkum skilaði frysting ríflega 53% alls útflutningsverðmætis eða 142 milljörðum króna sem er tæplega 1,7 milljarða króna samdráttur frá árinu 2011. Útflutningsverðmæti ísaðra fiskafurða jókst um 5,8% og nam rúmum 44 milljörðum króna. Þetta er áttunda árið í röð sem verðmæti ísaðra afurða eru hærra en saltaðra, en verðmæti þeirra var tæpir 27 milljarðar króna. Hlutfall ísaðra afurða af útflutningsverðmæti var 16,5% en hlutur saltaðra afurða nam 10%. Útflutnings-verðmæti mjöls og lýsis nam 13,7% af útflutningsverðmæti sjávarafurða og var 36,9 milljarðar króna til samanburðar við 29,2 milljarða árið 2011.
Af einstökum afurðum drógust verðmæti frystra afurða saman um 2,3% en aukning í magni var 5,2%. Verðmæti ísaðra afurða jókst um 5,9% en magn jókst um 2,2%. Framleiðsluverðmæti saltaðra og hertra afurða jókst um 13,9% og magn jókst um 9,2%. Framleiðsluverðmæti mjöls og lýsis jókst um 46% en magn þeirra um 34%.
Af einstökum afurðum þá skilaði heilfrystur makríll mestu útflutningsverðmæti, eða tæplega 19 milljörðum króna. Ferskur kældur þorskur skilaði 17,4 milljörðum, og blautverkaður saltaður þorskur 14,5 milljörðum. Loðnumjöl skilaði 13,9 milljörðum króna og sjófrystur karfi 11,8 milljörðum.
Á myndinni er saltfiski pakkað hjá Fiskkaupum í Reykjavík. Ljómynd Hjörtur Gislason.