Lax með appelsínu- og hunangsgljáa og aspas

Deila:

Nú splæsum við á okkur laxi með flottum gljáa. Þetta er svolítið austurlenskt ívaf og góð tilbreyting og aspasinn  setur punktinn yfir I-ið. Aspas og hunangs- og appelsínugljáður lax fara einstaklega vel saman. Sannkallaður veisluréttur.

Innihald:

  • safi úr einni appelsínu
  • börkur af einni appelsínu
  • ¼ bolli sojasósa
  • ¼ bolli hunang
  • 1 tsk. sesamolía
  • 3 msk chillisósa að eigin vali eða minna eftir smekk
  • 800g laxaflök í fjórum hæfilegum bitum, roðflett og fituhreinsuð

Aspasinn:

  • 1 búnt ferskur aspas
  • 2 msk. ólívuolía
  • 2 tsk. chillisósa
  • salt
  • pipar

Aðferð, aspasinn:

  1. Skerið um 2,5 sentímetra neðan af aspasstönglunum og hendið. Hitið góða pönnu á nokkuð háum hita. Raðið stönglunum á pönnuna og penslið þá með olíunni. Saltið og piprið og ýrið chillisóunni yfir.
  2. Steikið í 3-5 mínútur eða þar til aspasinn fer að brúnast. Snúið stönglunum þá við og steikið áfram í 2-3 mínútur. Takið þá af hitanum og leggið til hliðar en haldið heitum.

Aðferð, laxinn:

  1. Blandið saman appelsínusafa, appelsínuberki, sojasósu, hunangi, sesamolíu og chillisósu í skál.
  2. Takið ¼ af sósunni til hliðar til notkunar síðar.
  3. Setjið afganginn að sósunni í grunna skál og leggið laxinn í hana til maríneringar í 20 mínútur. Snúið flökunum eftir 10 mínútur.
  4. Hitið ofninn í 180° meðan laxinn er að marínerast. Setjið laxabitana á grind í miðjum ofninum og ofnskúffu undir til að taka við leka af þeim. Bakið laxinn í um 18 mínútur eða meira, ef bitarnir eru þykkir.
  5. Eftir þann tíma penslið laxinn með maríneringunni, sem tekin var til hliðar og skjótið smá grilli á hann, 2-5 mínútur.
  6. Berið laxinn fram með aspasnum, svolitlu af bræddu smjöri og góðu fersku brauði.

 

Deila: