Líður að lokum makrílvertíðar

202
Deila:

Nú líður að lokum makrílvertíðar hjá Síldarvinnsluskipunum og Bjarni Ólafsson AK er reyndar þegar hættur veiðum. Bjarni Ólafsson lauk við að landa 850 tonnum í fiskiðjuverið í Neskaupstað í nótt og þá hófst löndun úr Berki NK sem kominn var með 1.450 tonn.

Heimasíða Síldarvinnslunnar sló á þráðinn til Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra á Berki og spurði hvernig gengið hefði að fá í skipið. „Það gekk bara vel. Við fengum aflann í fimm holum og síðasta holið var 420 tonn. Þetta er fínasti fiskur, átuminni og sterkari en fyrr á vertíðinni. Í fyrstu holunum fengum við 460-480 gramma fisk en í síðasta holinu var fiskurinn um 400 grömm. Í þessum túr komum við einungis með eigin afla en Síldarvinnsluskipin hafa haft samvinnu á vertíðinni og dælt afla á milli eftir því sem hefur þótt henta.

Nú er að koma haustbragur á veðráttuna í Smugunni, lægðirnar koma í röðum. Það er farið að hylla undir lok vertíðarinnar en við förum allavega einn túr enn. Það ætti að vera búið að landa úr skipinu annað kvöld og þá verður strax haldið á miðin. Þegar makrílvertíð lýkur verður farið að hyggja að síldarvertíð og hún lítur vel út. Það er fullt af síld hérna austur af landinu og hún gengur jafnvel inn á firði. Kannski dólar hún sér hérna og safnast svo saman og hefur vetursetu á Rauða torginu eins og í gamla daga. Hver veit?“, segir Hjörvar.

Samkvæmt fréttum var góð makrílveiði í Smugunni í gær, en Beitir NK er eina Síldarvinnsluskipið á miðunum núna.
Á myndinni er Börkur NK að dæla afla yfir í Beiti NK í Smugunni. Síldarvinnsluskipin hafa haft samvinnu um veiðar á makrílvertíðinni. Ljósm. Helgi Freyr Ólason

 

Deila: