Líf og fjör í Norðfjarðarhöfn

107
Deila:

Það hefur svo sannarlega verið mikið um að vera í Norðfjarðarhöfn síðustu dagana. Veiðiskip koma og fara og flutningaskip koma og lesta afurðir. Alls staðar eru menn að störfum við löndun eða útskipun. Verðmætin sem fara um höfnina eru ótrúlega mikil og vinnslustöðvarnar hafa vart undan að taka á móti aflanum samkvæmt frétt á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Í gær var verið að landa síld úr Berki NK og einnig var verið að landa fullfermi úr ísfisktogaranum Vestmannaey VE. Margrét EA kom til hafnar í gær með 730 tonn af síld og fékkst aflinn í einungis einu holi. Þá var verið að skipa út frystum makríl og undirbúa komu Hákonar EA sem var að koma með frysta síld til löndunar. Í gærkvöldi lauk síðan vinnslu úr Berki og þá hófst vinnsla úr Margréti.
Ekki var síður mikið um að vera við höfnina í morgun. Þá var enn verið að vinna síldina úr Margréti, ísfisktogarinn Bergey VE var kominn til löndunar með góðan afla og hamast var við að landa frystri síld úr Hákoni. Jafnhliða var unnið áfram við útskipun á frystum makríl. Börkur beið í höfninni eftir að röðin kæmi að honum að halda út á síldarmiðin en Beitir NK hélt til veiða í morgun. Síldveiðin er það góð og miðin í svo mikilli nálægð að einungis eitt skip er að veiðum hverju sinni. Við bryggju hinnar nýju netagerðar Hampiðjunnar lá síðan grænlenska skipið Polar Amaroq og naut þjónustu netagerðarmannanna.

Það er afskaplega gaman að fylgjast með því sem er að gerast við höfnina. Þar er líf og fjör og bullandi traffík.

Ljósmyndir Smári Geirsson

Deila: